Innlent

Kaldar nætur í vændum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búast má við súld eða rigningu á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Búast má við súld eða rigningu á höfuðborgarsvæðinu í dag. vísir/vilhelm
Eftir hlýindin undanfarið hefur kaldara loft nú borist yfir landið úr norðri að sögn Veðurstofunnar. Næstu nætur verða kaldar og má jafnvel búast við frosti, þá helst um norðan- og austanvert landið.

Útlit er fyrir fremur hæga breytilega átt sunnan- og suðvestanlands með súld eða rigningu í dag. Í öðrum landshlutum má hins vegar búast við norðan 8-13 m/s. Þá gerir Veðurstofan ráð fyrir að lítilsháttar snjóél verði viðloðandi á Austurlandi, en að það verði þurrt að mestu um landið norðvestanvert.

Hiti í dag frá frostmarki norðaustanlands, upp í 8 stig á Suðvesturlandi.

Þá er búist við hægri suðlægri eða breytilegri átt á morgun með dálitlum skúrum á Suður- og Vesturlandi. Fyrir norðan og austan muni hins vegar rofa smám saman til „og gæti sólin tekið mesta hrollinn úr mönnum á þeim slóðum,“ eins og veðurfræðingur kemst að orði.

Litlar breytingar verða á veðrinu um og eftir helgi, ef marka má veðurhorfurnar á landinu næstu daga.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag, laugardag og sunnudag:

Breytileg átt 3-10 m/s. Skýjað að mestu á landinu, en úrkomulítið. Hiti 2 til 10 stig að deginum, hlýjast suðvestanlands. Líkur á vægu næturfrosti á Norður- og Austurlandi. 

Á mánudag:

Hæg austlæg átt og dálitlir skúrir sunnanlands, en þurrt í öðrum landshlutum. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag og miðvikudag:

Útilit fyrir norðanátt með lítilsháttar éljum á norðanverðu landinu og hita um frostmark, en þurrt syðra og hiti að 7 stigum yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×