Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem saksóknararnir skrifa undir. Í henni segja þeir William Barr, dómsmálaráðherra, hafa rangt fyrir sér þegar hann heldur því fram að sönnunargögn Robert Mueller, sérstaks rannsakanda ráðuneytisins, dugi ekki til að halda því fram að Trump hafi framið glæp og ekki sé hægt að ákæra hann á þeim grundvelli.
Sjá einnig: Sagður haga sér eins og lögmaður Trump en ekki dómsmálaráðherra
Reglur Dómsmálaráðuneytisins Bandaríkjanna koma í veg fyrir að hægt sé að ákæra sitjandi forseta. Í skýrslu Mueller tók hann fram að hann vildi ekki segja til um hvort Trump hefði framið glæp, vegna þeirra reglna. Þess í stað ákvað hann að taka saman þó nokkur tiltekin dæmi þar sem Trump gæti hafa reynt að hindra framgang réttvísinnar. Einnig var tekið fram að hægt væri að nota þau sönnunargögn eftir að Trump hættir sem forseti.
Í yfirlýsingunni eru nokkur af dæmum Mueller tekin fyrir, eins og það að Trump hafi reynt að reka Mueller og reynt að falsa skjöl til að hylma yfir það og að Trump hafi reynt að koma í veg fyrir að vitni ræddu við Mueller, svo eitthvað sé nefnt.
„Hver okkar trúir því að framferði Trump forseta eins og því er lýst í skýrslu Mueller myndi, í tilfelli annarra persóna sem væru ekki varðar af reglum Dómsmálaráðuneytisins gegn því að ákæra sitjandi forseta, leiða til margra ákæra fyrir að hindra framgang réttvísinnar,“ skrifa saksóknararnir.
Þeir segja einnig að þetta sé ekki spurning um faglegt mat. Þó hægt sé að setja fram ýmis konar varnir og mótrök gegn ákæru, sé það gegn rökréttri hugsun og sameiginlegri reynslu þeirra saksóknara sem skrifa undir að lesa skýrslu Mueller og komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að dæma menn á grunni skýrslunnar.
Þegar þetta er skrifað hafa 390 fyrrverandi alríkissaksóknarar skrifað undir skýrsluna.
Vilja krefja Mueller svara
Washington Post hefur tekið saman nokkra af þeim sem hafa skrifað undir yfirlýsinguna og þykja hvað áhrifamestir. Þar á meðal eru Bill Weld, sem starfaði sem ríkislögmaður Ronald Reagan; Donald Ayer, sem starfaði sem aðstoðardómsmálaráðherra fyrir George H.W. Bush; John S. Martin, fyrrverandi ríkislögmaður og alríkisdómari sem skipaður var í stöður sínar af tveimur forsetum Repúblikanaflokksins.Einnig skrifaði Paul Rosenzweig undir yfirlýsinguna en hann starfaði við rannsókn Kenneth W. Star, sérstakan rannsakanda Dómsmálaráðuneytisins sem rannsakaði Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Á listanum eru rúmlega 20 fyrrverandi ríkislögmenn og minnst hundrað manns sem hafa starfað í meira en tuttugu ár innan Dómsmálaráðuneytisins. Þeir hafa starfað fyrir allar ríkisstjórnir Bandaríkjanna frá því Dwight D. Eisenhower var forseti.
Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa velt vöngum yfir því hvort Robert Mueller sjálfur eigi að vera kallaður fyrir þingmenn og svara spurningum um rannsókn sína. William Barr hefur sagt að hann sé ekki mótfallinn því og Trump hafði sagt það sama.
Trump hefur þó skipt um skoðun og lýsti því yfir um helgina að Mueller ætti ekki að svara spurningum þingmanna.