Hressingarskálinn við Austurstræti, ásamt sportbarnum Bjarna Fel, hefur verið settur á sölu. Um er að ræða elsta veitingahús og skemmtistað Reykjavíkur í fullum rekstri, ásamt stóru útisvæði og eldhúsi, en ekkert er gefið upp um verðhugmynd á fasteignavef Vísis.
Húsið við Austurstræti 20, sem reist var árið 1805, hefur leyfi fyrir 430 manns en fyrsti veitingaskálinn opnaði í húsinu á fjórða áratug síðustu aldar. Húsið slapp vel í brunanum í Austurstræti árið 2007 og ári síðar opnaði fyrrnefndur Bjarni Fel, í rýminu þar sem Ömmukaffi var áður til húsa.
Nánari upplýsingar um Hressingarskálann má nálgast á fasteignavef Vísis, en haft er eftir einum núverandi eigenda í Fréttablaðinu að rekstrarörðugleikar séu ekki ástæða sölunnar - eigandinn sé einfaldlega að flyjast búferlum til Bandaríkjanna.
