Viðskiptavinir Arion banka og Landsbankans geta nú tengt greiðslukort sín við Apple Pay, greiðslulausn bandaríska tæknirisans Apple. Með Apple Pay geta notendur iPhone, Apple Watch, iPad og Mac-tölva greitt fyrir vörur og þjónustu í verslunum víða um heim sem og á netinu.
Þetta kemur fram í tilkynningum frá bönkunum þar sem fram kemur að viðskiptavinir bankanna tveggja muni áfram njóta þeirra fríðinda og tilboða sem fylgi greiðslukortum bankanna tveggja, auk þess sem að enginn viðbótarkostnaður tengist því að greiða með Apple Pay. Þá kemur fram á Facebook-síðu Íslandsbanka að innan tíðar muni viðskiptavinir Íslandsbanka geta notað Apple Pay með kortum bankans.
„Þegar Apple Pay er notað til að greiða fyrir vörur og þjónustu í verslunum með iPhone síma eða Apple Watch úri þá fer greiðslan fram með einföldum og snertilausum hætti. Þegar vara eða þjónusta er keypt í gegnum snjallforrit eða á vefnum, er einn af kostum Apple Pay að ekki þarf lengur að fylla út greiðsluupplýsingar eða endurtekið að fylla út upplýsingar um kaupanda og hvert senda á vöru,“ segir í tilkynningunni frá Arion banka.
Í tilkynningu Landsbankans er farið yfir tæknilega hlið málsins en þar segir að þegar greiðslukort sé tengt við Apple Pay, vistast kortanúmerið hvorki í tækið né á netþjóna Apple. Í staðinn sé stofnað sýndarnúmer fyrir kortið sem er vistað með öruggum hætti í tækinu. Hver greiðsla sé síðan heimiluð með einkvæmu og breytilegu öryggisnúmeri. Við framkvæmd greiðslu auðkenna viðskiptavinir sig síðan með andlitsgreiningu fingrafari eða aðgangsnúmeri tækisins, að því er segir í tilkynningu Landsbankans.
Apple Pay var kynnt til leiks árið 2014 en hefur þangað til nú ekki verið aðgengilegt með íslenskum greiðslukortum. Nánar má lesa um Apple Pay hér.
