Ótrúlegur endir í Amsterdam er Moura skaut Tottenham í úrslit

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fyrirliðinn fagnar fyrsta markin
Fyrirliðinn fagnar fyrsta markin vísir/getty
Lucas Moura skaut Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld en Moura skoraði öll mörk Tottenham í 3-2 sigri á Ajax í kvöld. Tottenham áfram á útivallarmörkum.

Það voru ekki liðnar nema fimm mínútur er Matthijs de Ligt skoraði fyrsta markið með frábærum skalla eftir hornspyrnu. Speglun af markinu sem hann skoraði gegn Juventus.

Staða Ajax varð svo enn betri á 35. mínútu er Hakim Ziyech skoraði eftir laglega sókn. Dusan Tadic lagði boltann út í teiginn þar sem Marókkóinn kom á fleygiferð og skoraði.

Vænleg staða Ajax og flestir búnir að aðskrifa Tottenham sem þurfti að skora þrjú mörk í síðari hálfleik til þess að koma sér í úrslitaleikinn í Madríd.







Það var hins vegar allt annað að sjá lið Tottenham í síðari hálfleik. Eftir flotta skyndisókn var það Lucas Moura sem batt endahnútinn á hana og minnkaði muninn fyrir Tottenham á 55. mínútu.

Fjórum mínútum síðar jafnaði Moura metin. Eftir að Fernando Llorente lét verja frá sér úr dauðafæri fékk Moura boltann, lék sér með boltann og kom svo óvæntu skoti sem endaði í netinu. 2-2 og samanlagt 3-2 fyrir Ajax.

Þremur mínútum fyrir leikslok fékk Jan Vertonghen dauðafæri til þess að skjóta Tottenham í úrslitaleikinn en honum brást bogalistinn. Flestir héldu þá að einvíginu væri lokið.

Það var þó ekki niðurstaðan. Á lokasekúndum leiksins, sjöttu mínútu uppbótartíma, ýtti Dele Alli boltanum inn fyrir á Lucas Moura sem þrumaði boltanum í netið. Ævintýralegur endir. Lokatölur 3-2, samanlagt 3-3 og Tottenham í úrslit á útivallarmörkum.

Það verður því enskur úrslitaleikur í Madríd þann 1. júní en Tottenham og Liverpool mætast í úrslitaleiknum.







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira