Erlent

Bann á efni hvítra þjóðernissinna gæti fjarlægt efni stjórnmálafólks Repúblikana

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Jack Dorsey, forstjóri Twitter.
Jack Dorsey, forstjóri Twitter. Getty/Cole Burston
Á starfsmannafundi Twitter, sem fram fór þann 22. mars, spurði starfsmaður fyrirtækisins hvernig stæði á því að Twitter hafi náð að fjarlægja hatursorðræðu sem íslamskir öfgahópar bæru ábyrgð á en ekki hatursorðræðu á vegum hvítra þjóðernissinna. Frá þessu er greint á vef Motherboard.

Einn stjórnarmanna svaraði að fyrirtækið starfaði innan lagaramma, en starfsmaður tæknideildarinnar sagði að þegar efni væri síað væri alltaf eitthvað meinlaust efni sem væri síað. Hann tók dæmi um að þegar ISIS sían, það er sían sem tekur út hatursorðræðu frá íslömskum öfgahópum, hafi verið sett á, hafi einnig meinlaust efni verið síað út, til dæmis fréttastöðvar sem væru á arabísku.

Hann sagði samfélagið í heildina vera samþykkt því að banna efni frá ISIS þrátt fyrir að það kæmi sumum illa.

Í öðrum umræðum á starfsmaður fyrirtækisins að hafa sagt Twitter ekki hafa tekið sömu ráðstafanir við efni hvítra þjóðernissinna vegna þess að sumir aðgangar sem yrði lokað væru aðgangar stjórnmálamanna Repúblikanaflokksins.

Þessi starfsmaður færði rök fyrir því, að algóriþminn sem notaður væri gæti blandað saman efni frá stjórnmálamönnum Repúblikanaflokksins og öðru efni hvítra þjóðernissinna. Það að banna stjórnmálafólki að vera á forritinu yrði ekki vinsælt meðal almennings þrátt fyrir að það myndi koma í veg fyrir efni hvítra þjóðernissinna, annað en með ISIS.

Twitter sagði í samtali við Motherboard  að ekkert í stefnu fyrirtækisins gæfi þessa afstöðu til kynna, „þetta er ekki nákvæm lýsing á okkar stefnu eða starfsemi – á neinn hátt.“ Þrátt fyrir það sýna athugasemdir starfsmannsins það hvernig samfélagslegir staðlar hafa áhrif á samfélagsmiðla.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna fundaði í gær með Jack Dorsey, forstjóra Twitter. Trump hefur gagnrýnt miðilinn mikið fyrir að spila „pólitíska leiki“ og sagði það viljandi fækka fylgjendum hans.

Íhaldsmenn í Bandaríkjunum hafa kvartað verulega yfir því að fyrirtæki eins og Twitter, Facebook og Google hafi falið síður þeirra á samfélagsmiðlum, sem þeir kalla „skuggabönn“ (e. Shadow banning).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×