Skoðun

Póstkort heim

Guðmundur Steingrímsson skrifar
Nú hef ég verið á ferðalagi með konu minni og börnum frá því í janúar um lönd Mið- og Suður-Ameríku. Þessa stundina erum við í Perú á leiðinni til Bólivíu. Við seldum bílinn, leigðum íbúðina og kýldum á það. Við höfum aldrei ferðast svona lengi. Hver er með sinn bakpoka. Ein af uppgötvunum ferðarinnar er sú hversu einfalt það er að lifa með lítið. Maður þarf í rauninni ekki baun, svona frá degi til dags.

Auðvitað hafa verið ort mörg ljóð og skrifaðar margar sögur um það hvernig ferðalög fólks eru alltaf líka ferðalög hugans. Í raun veit maður ekki hvernig langt ferðalag mun breyta þankaganginum og sýninni á lífið, ekki frekar en maður veit hvað bíður manns á áður ókönnuðum stöðum. Sérhvert ferðalag er þannig óvissuferð bæði inn á við og út á við.

Þrjár uppgötvanir

Áður en við lögðum af stað hugsaði ég svolítið um það hvernig kynnin af öllum þessum fjarlægu löndum myndu breyta sýn minni á heimahagana. Tilhneigingin til að spegla aðra menningu í sinni eigin er sterk. Í sólarlandaferðum síðustu aldar fór þessi samanburður yfirleitt þannig fram að fólk skrifaði póstkort heim til Íslands og greindi frá því með tíu upphrópunarmerkjum að áfengi væri fáránlega ódýrt á Spáni og að maður þyrfti ekki að vera í peysu. Það væri heitara úti en inni.

Núna er þjóðin veraldarvanari — allir eru á flandri — og uppgötvanir um áfengisverð og veðurfar þykja ekki merkilegar. Trúr þessari gömlu póstkortahefð finnst mér þó viðeigandi að skrifa kort heim og segja frá því hvað ég hef uppgötvað hingað til um Ísland og veröldina. Hér er þrennt:

Á Íslandi er þögn

Í Mið- og Suður-Ameríku eru endalaus hljóð úti um allt. Öskurapar vekja mann með andfælum á næturnar. Hundar gelta. Hanar gala. Skrítin skordýr gefa frá sér hljóð sem er eins og hátíðni-keðjusög. Fólk í Kólumbíu hlustar á tónlist eins og hækka/lækka takkar landsins séu allir fastir á hæsta. Heyrnartól eru ekki mikið tekin í álfunni. Öskubílar eru með hátalara á sér og blasta einhvers konar teknósalsa í botni klukkan sex á morgnana. Ökumenn í Perú virðast algjörlega sannfærðir um það að umferðin muni ekki fara áfram nema þeir flauti hressilega. Morgnarnir eru eitt allsherjar flautubrjálæði.

Maður á ekki að venjast þessu. Þegar ég hugsa um Ísland í þessum samanburði heyri ég lágvært blístur í gnauðandi vindi. Mögulega regn á bárujárnsþaki. Kannski fréttastefið í nálægri íbúð. Klukkutif á vegg. Lítið meira. Einhvern tímann heyrði ég í Vesturbænum nið frá bassa á Gay Pride. Og jú, ég hef heyrt hund gelta. En ef einhver í Vesturbænum væri með hana úti í garði sem gólaði frá þrjú til fimm á næturnar, héldi öskurapa, fimm brjálaða villihunda og hengdi teknógræjur utan á öskubílinn, er ég nokkuð viss um að allt yrði snælduvitlaust í Vesturbæjargrúppunni.

Lifi byltingin

Leigubílstjórar í Mið- og Suður-Ameríku eru margir miklir grallaraspóar. Þeir vita oft ekki hvar göturnar eru. Eiga yfirleitt ekki skiptimynt. Yppta öxlum yfir skorti á öryggisbeltum. Hótelrekendur eru haldnir svipuðum tilhneigingum. Þeir auglýsa fyrirtaksherbergi á bókunarsíðum, en svo fær maður auðvitað ekki það herbergi við komuna, heldur litla kompu við hliðina á loftræstikerfinu með útsýni á múrvegg. Í veröld hinna gömlu og hverfandi viðskiptahátta skiptir ánægja neytandans ekki næstum því jafnmiklu máli og hún gerir í því umhverfi sem bílapöntunarappið Über og leiguappið Airbnb hafa skapað. Á ferð okkar höfum við notað þessi undur óspart, til einföldunar og þæginda. Á Íslandi ríkir mun meiri tortryggni gagnvart Über og Airbnb en hér suður frá. Über er beinlínis bannað. Hitt má helst ekki. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar hafa sameinast um að gera þessum nútímaþjónustuháttum sem lægst undir höfði, enda stórhættulegt að neytendur geti pantað og notið þjónustu á einfaldan hátt, vitað hvað þeir fá og gefið svo dóma á eftir. Hvað þá að þjónustan sé persónuleg, eignum sé deilt og að fólk kynnist jafnvel. Á Íslandi ráða þursar of miklu. Hræddir við nútímann. Þeir eru spenntari fyrir stórskipahöfn í Finnafirði en möguleikum deilihagkerfisins.

Mannkyn eitt

Ein uppgötvun er þó öðrum fremri hingað til. Við höfum kynnst því að fólk er almennt gott. Þótt böl sé víða lifir kærleikurinn. Það er líka eitthvað magnað við það að ferðast heimshorna á milli og uppgötva að áhugamálin og húmorinn er sá sami. Fólk er að horfa á sömu þættina á Netflix og ég.

Og súpan sem við sitjum öll í er líka sú sama: Jökullinn á hinu fræga eldfjalli Cotopaxi er líka að hverfa, rétt eins og ísinn á Snæfellsjökli. Fólkinu í Ekvador finnst það alveg jafnhræðilegt. Spurningin sem blasir við, hún sameinar mannkyn: Hvað ætlum við að gera í því?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×