Viðskipti innlent

Flugfargjöld hækkuðu um fimmtung

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gjaldþrot WOW air spilaði inn í flugfargjaldahækkunina.
Gjaldþrot WOW air spilaði inn í flugfargjaldahækkunina. WOW air
Gjaldþrot WOW air og árstíðabundin verðsveifla eru sagðar útskýringar þess að flugfargjöld til útgjalda hækkuðu um rúmlega fimmtung á milli mánaða. Í úttekt Hagstofunnar segir jafnframt að brotthvarf WOW hafi haft áhrif á vísitölu neysluverðs, sem hækkaði um 0,37 prósent frá fyrri mánuði.

Hagstofan áréttar þó að algengt sé að sjá hærri flugfargjöld í kringum páska. „Mælingin tekur tillit verðs á helstu flugleiðum milli Íslands og Evrópu annars vegar og Íslands og Norður-Ameríku hins vegar. Mælt er verð hjá helstu þjónustuveitendum á hverri leið og gert ráð fyrir að ferðast sé frá Íslandi og aftur til baka,“ segir á vef Hagstofunnar.

Síðast hækkuðu flugfargjöld svona skarpt milli síðastliðinna nóvember- og desembermánaða. Þá nam hækkunin rúmlega 25 prósentum á milli mánaða og var sú hækkun alfarið skrifuð á árstíðarbundna sveiflu á miðaverði.

Af öðrum verðhækkunum má nefna að bensín- og olíuverð hækkaði um 2,5 prósent frá fyrri mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,3% en vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 2,8%.

Nánar á vef Hagstofunnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×