Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,74 prósent á milli mánaða og stendur nú í 463,9 stigum. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,7% og hefur verðbólgan ekki verið meiri síðan í lok árs 2013. Þá var verðbólgan 4,2 prósent.
Í útlistun á vef Hagstofunnar kemur meðal annars fram að þessa verðbólguaukningu megi, að mjög litlum hluta þó, til hækkunar á flugfargjöldum á milli mánaða.
Þessi hækkun nam alls rúmlega 25 prósentum á milli mánaða. Þessi flugfargjaldahækkun fór ekki framhjá Neytendasamtökunum sem réðst í eigin úttekt á dögunum. Leiddi hún meðal annars í ljós að mestu verðhækkunina mátti finna á flugleiðinni til Parísar hjá WOW, sem hækkaði um 266 prósent á nokkrum vikum. Sama flugleið hækkaði um 32 prósent hjá Icelandair.
Þessar hækkanir má að miklu leyti rekja til árstíðarbundinnar sveiflu á flugverði. Starfsmaður Hagstofunnar segir í samstarfi við Vísi að þannig hafi flugmiðahækkunin á sama tíma í fyrra verið á svipuðu reiki og fyrrnefnd fjórðungshækkun.
Ef marka má úttekt Neytendastofu lækkuðu þó bæði WOW og Icelandair verðið á flugleiðinni til Lundúna á síðustu vikum.
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í desember 2018, sem er 463,9 stig eins og fyrr segir, gildir til verðtryggingar í febrúar 2019.
Flugfargjöld hækkuð um fjórðung milli mánaða
