Innlent

Öll börn á skólaskyldualdri eiga rétt á skólavist í skóla sem mætir þörfum þeirra

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Menntamálaráðherra segir að öll börn á skólaskyldualdri eigi rétt á skólavist í skóla sem mæti þörfum þeirra. Ástandið sé ekki ásættanlegt og við því þurfi að bregðast við.

Mál einhverfrar ellefu ára stúlku sem fékk ekki skólavist í grunnskóla borgarinni hefur verið til umfjöllunar síðustu daga. Málið fékk farsælt framhald í dag þegar henni var boðin skólavist í Hamraskóla.

Málið er þó ekki einstakt því fleiri börn eru í sömu stöðu og stúlkan og fá ekki skólavist sökum andlegra veikinda. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra segir mál þessara bara hafa verið til skoðunar. „Það er alveg ljóst að öll börn á skólaskyldu aldri eiga rétt á skólavist og þau eiga rétt á því að sækja skóla sem mætir þörfum þeirra,“ segir Lilja.

Deildarstjóri legudeildar Barna og unglingageðdeildar sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að áríðandi væri að taka miklu fyrr og miklu fastar á vanda þessara barna en nærumhverfið gerir í dag.

Mál þessara barna snerta þrjú ráðuneyti. Það er heilbrigðis- félagsmála og menntamála.  Ríkisstjórnin hefur unnið í því að bæta samráð á milli ráðuneyta til þess að auka þjónustu við börn. Þá sé einnig unnið að bættu samráði við sveitarfélög vegna grunnskólanna.

„Við verðum öll sem samfélag að takast á við þessa áskorun. Þetta er ekki ásættanlegt og ég tel að við getum gert betur og þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa verið að grípa til og vilja gera betur í þessum málaflokki þær munu skila góðum árangri,“ segir Lilja.

Lilja segir að alltaf séu til dæmi í skólakerfinu sem hlúa þurfi betur að og að þetta sé eitt af þeim.

„Nú er verið að gera það og ég er sannfærð um það að það muni finnast mjög góð lausn á þessu og við eigum að hafa metnað til að gera það,“ segir Lilja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×