Skoðun

Út um borg og bí

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir skrifar
Við sem myndum sveitarstjórnir höfuðborgarsvæðisins spönnum breitt pólitískt litróf. Við höfum ólíka sýn og áherslur en við sameinumst um lífsgæði íbúanna og uppbyggingu samgangna til framtíðar.

Í dag eru 76% ferða í bíl, 20% gangandi/hjólandi og 4% með almenningssamgöngum. Okkar markmið er að árið 2030 verði bílferðir 64%, gangandi/hjólandi 27% og almenningssamgöngur 9%. Við höfum skýra sýn, að tryggja að fólksfjölgun verði án þess að bílaumferð og umferðartafir aukist verulega.

Verkefnið er þríþætt. Það snýr að uppbyggingu stofnvegakerfis, hönnun og uppbyggingu Borgarlínu og þróun hjólastígakerfis. Stofnvegir á höfuðborgarsvæðinu eiga að mynda tveggja laga kerfi meginstofnvega. Þetta kerfi þarf að endurhanna eftir því sem byggð þróast. Ástandsgreining var unnin árið 2017. Helstu niðurstöður voru að umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu eru meira bundnar við ákveðna umferðarstrauma frekar en ákveðin gatnamót. Bestun á ljósastýringum er árangursríkasta lausnin til að liðka fyrir þungum umferðarstraumum.

Tilkoma Borgarlínu mun hafa jákvæð áhrif á umferðaröryggi og stuðla að hagkvæmum samgöngum en hún mun ekki síður draga úr loftmengun og neikvæðum loftslagsáhrifum, þrengslum, hávaðamengun og slysum.

Hjólreiðar hafa aukist umtalsvert úr 4% árið 2014 í 6% árið 2017. Þetta jafngildir því að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi farið yfir 50 þúsund ferðir á reiðhjóli á venjulegum degi í október 2017. Þróun stofnhjólastígakerfis gerir hjólreiðar raunhæfan samgöngukost allt árið um kring.

Fram undan eru ærin verkefni og búið að undirbúa vel með greiningum, skoðunum og umræðu. Undirbúningur við Borgarlínu og tengdar stofnvegaframkvæmdir og bestun á ljósastýringum er formlega hafinn í góðu samstarfi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar. Fjármagn hefur verið tryggt til undirbúnings og áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2020. Okkur er því ekkert að vanbúnaði – nú er bara að láta hlutina gerast.



Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík og formaður borgarráðs.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×