Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sealife Trust sem kemur að verkefninu. Um helgina kom í ljós að ekki yrði hægt að flytja hvalina tvo til Eyja samkvæmt áætlun, þar sem ekki hafi tekist að opna Landeyjarhöfn fyrir siglingar á milli lands og Eyja.
Talið er að mjaldrarnir, sem fá varanlegt heimili í Klettsvík í Vestmannaeyjum, myndu ekki þola flutning með Herjólfi frá Þorlákshöfn til Eyja sem er lokahnykkurinn á ferðalaginu en flug með þá hingað til lands frá Kína tekur um sólarhring.
„Þessi tímabunda töf á vandasömum flutningi hvalanna er vegna veðurs og erfiðra aðstæðna til flutninga sjóleiðina frá landi til Vestmannaeyja. Flutningarnir fara fram þegar veður og aðstæður leyfa,“ segir í tilkynningu frá Sealife Trust.
Lögð er áhersla á aðeins sé um tímabunda töf að ræða og að allir þeir sem komi að verkefninu séu staðráðnir í því að í „skapa fyrsta griðarstað hvala í heiminum í vernduðu sjávar umhverfi á Íslandi.“
Sem fyrr segir eru mjaldrarnir staðsettir í Kína en alls þarf að flytja þá um 9.000 kílómetra á nýjar heimaslóðir þeirra hér við land.
Miklar framkvæmdir hafa verið við nýtt sædýrasafn í endurbættu húsnæði gömlu Fiskiðjunnar á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum en fréttamaður Stöðvar 2 kíkti í heimsókn á dögunum, líkt og sjá má hér fyrir neðan.