Körfubolti

Þórir og félagar áttu frumlegustu fögnin og komust í Shaqtin' A Fool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Þorbjarnarson fagnar með liðsfélaga sínum hjá Nebraska Cornhuskers.
Þórir Þorbjarnarson fagnar með liðsfélaga sínum hjá Nebraska Cornhuskers. Getty/Jonathan Daniel
Þórir Þorbjarnarson er að spila með körfuboltaliði Nebraska Cornhuskers í bandaríska háskólakörfuboltanum og hann og liðsfélagarnir settu sinn svip á uppgjör Shaquille O´Neal á lokaspretti háskólakörfubolta tímabilsins.

Þórir og félagar komust ekki í Marsfárið í ár en voru með í NIT keppninni þar sem þeir duttu út fyrir TCU í annarri umferð.

Shaquille O´Neal tók saman „Shaqtin' A Fool: March Madness“ um bandaríska háskólaboltann. Shaqtin' A Fool er vanalega að einblína á fyndin tilþrif og klaufaskap NBA-leikmanna. Nú var aftur á móti komið að háskólakörfuboltanum.

Þórir og félagar áttu þar frumlegustu fagnaðarlætin og komust í Shaqtin' A Fool.

Þar sjást þeir meðal annars bjóða upp á bobsleðafagn eftir eina körfu félaga sinna. Þórir er annar í röðinni en það má smá fagnið þeirra eftir um 45 sekúndur.

Bobsleðfagnið var ekki það eina sem kom Nebraska Cornhuskers upp í 2. sætið á samantekt Shaquille O´Neal því þar má sjá Þóri og strákana einnig bjóða upp á glímufagn, á lyftingasalsfagn, gefa liðsfélaga sínum tíu fyrir troðslu og bera síðan einn út af eftir þykjustu yfirlið.

Það er ljós á þessu að það er greinilega mjög gaman að vera hluti af þessu Nebraska körfuboltaliði.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var núna á sínu öðru ári í skólanum en hann fór út sem þrefaldur Íslandsmeistari með KR. Þórir var með 2,0 stig og 2,1 frákast að meðaltali á 12,3 mínútum á þessu öðru ári sínu.

Hér fyrir neðan má sjá „Shaqtin' A Fool: March Madness“ og við stillum hana þannig að myndbandið hefst á samantektinni á tilþrifum Þóris og félaga á hliðarlínunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×