Körfubolti

Martin að ná í úr­slita­keppnina eftir allt saman?

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson og félagar gætu verið á leið í úrslitakeppnina eftir allt saman.
Martin Hermannsson og félagar gætu verið á leið í úrslitakeppnina eftir allt saman. Getty/Uwe Anspach

Eftir martraðargengi framan af leiktíð gætu Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín verið að komast bakdyramegin inn í úrslitakeppni þýsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta, rétt í lok deildakeppninnar.

Alba Berlín hefur verið á góðu flugi í síðustu leikjum og endurheimti Martin í lið sitt í dag eftir að hann missti af leik um helgina vegna nárameiðsla.

Liðið valtaði yfir Mitteldeutscher í Berlín í dag, 90-62, og kom sér þannig upp fyrir gestina á stöðutöflunni, í fyrsta sinn síðan í október.

Alba Berlín er nú með 17 sigra og 14 töp, þegar liðið á aðeins einn leik eftir, en Mitteldeutscher er með 15 sigra og 14 töp og á auk þess erfiða leiki eftir á lokakaflanum.

Sigurhlutfall Alba Berlín skilar liðinu núna 7. sæti í stað 10. sætis fyrir sigurinn í kvöld en baráttan er afar jöfn. Tíu efstu liðin halda áfram eftir að deildarkeppninni lýkur. Sex efstu komast beint í 8-liða úrslitin en liðin í 7.-10. sæti spila umspil um tvö síðustu sætin þar.

Martin lét til sín taka í dag og var næststigahæstur með 12 stig auk þess að eiga langflestar stoðsendingar eða átta talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×