Haft er eftir Guðmundi í tilkynningu frá aðstandendum fundarins að honum þyki heiður að taka við embættinu, ekki síst í ljósi þess að þetta var 40. aðalfundur SÍA.
„Það er merkilegt að mörg af þeim málum sem þá voru til umræðu eru enn til umræðu en önnur tökum við sem sjálfsögðum hlut. Til dæmis var það fyrsta sem félagið sameinaðist um var að mæla samræmt áhorf og lestur í fjölmiðlum til að geta birt auglýsingar á faglegan hátt. Ekki er hægt að hugsa sér auglýsingabirtingar í dag án þess að hafa mælingar á fjölmiðlum,“ segir Guðmundur.
Ótæk karllægni
Hann segir jafnframt að geirinn brenni í dag fyrir kynjajafnrétti, ekki síst í stjórnunarstöðum á auglýsingastofum.„Við höfum lagt okkur fram um það undanfarin ár að leiðrétta þetta og ég ætla að beita mér fyrir því að við gerum slíkt hið sama í dómnefndarstörfum fyrir Lúðurinn. Það er ófært að nánast eingöngu karlmenn séu fulltrúar stofanna í dómnefndinni enda gefur það okkur augljóslega aðeins viðhorf karlkyns auglýsingafólks ef við jöfnum ekki þar.“
Honum þyki einnig mikilvægt að standa vörð um virðingu fagsins og þess starfs sem unnið er á auglýsingastofum.
„Það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið að sú þekking og reynsla sem myndast inni á stofunum haldi áfram að vaxa. Því ef þekkingin vex ekki stöðugt þá nær Ísland ekki góðum árangri í þeim heimi sem við lifum í. Heimurinn er smám saman að verða eitt markaðssvæði og þar mun sala og markaðssetning verða ein mikilvægasta þekkingin til að halda uppi lífskjörum í landinu. Ef íslensk fyrirtæki gera ekki vel á alþjóðamarkaði verða lífskjör á Íslandi aldrei góð“, segir Guðmundur Pálsson nýr formaður SÍA.