Körfubolti

Náði fyrstu þrennunni í Mars-æðinu í sjö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ja Morant.
Ja Morant. AP/Jessica Hill
Ja Morant var maðurinn á bak við óvæntan sigur Murray State á Marquette í fyrstu umferð úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans.

Ja Morant var með 17 stig, 16 stoðsendingar og 11 stoðsendingar í öruggum 83-64 sigri á Marquette en Marquette var raðað í fimmta sæti yfir bestu liðin í þessum hluta keppninnar.

Þetta var fyrsta þrennan í Mars-æðinu í sjö ár eða síðan að Draymond Green, núverandi leikmaður Golden State Warriors var með þrennu fyrir lið Michigan State vorið 2012.

Það hafa síðan aðeins sjö aðrir leikmen náð þrennu í úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans og það eru þeir Oscar Robertson Magic Johnson, Gary Grant, David Cain, Andre Miller, Dwayne Wade og svo síðast Draymond Green.





Frammistaða Ja Morant hefur kallað á mun meiri athygli á þessum nítján ára strák sem er á sínu öðru ári í Murray State háskólanum. Í ár er hann með 24,6 stig og 10,0 stoðsendingar að meðaltali í leik en í fyrravetur voru meðaltölin hans 12,7 stig og 6,3 stoðsendingar.

Það er því kominn mikill áhugi frá NBA-liðum á þessum skemmtilega leikmanni. Hann var reyndar talsverður fyrir leikinn í gær en almennt er talið að hann verði einn af þeim fyrstu sem verða teknir í nýliðavali NBA-deildarinnar í sumar.

Með því að gefa sextán stoðsendingar í leiknum þá komst Ja Morant einnig nálægt metinu yfir flestar stoðsendingar í úrslitakeppni NCAA en metið er átján stoðsendingar.

„Sextán stoðsendingar. Það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Bara að sjá bros á andlitum liðsfélaganna. Að geta búið til skot og hjálpað til við að byggja upp sjálfstraust þeirra. Ég er stoltur af því,“ sagði Ja Morant eftir leikinn.

„Ég vissi að þeir myndu einbeita sér að því að stoppa mig. Ég vissi þá um leið að það myndu þá verða fullt af tækifærum fyrir liðsfélagana mína að skora,“ sagði Morant.





Næsti leikur hjá Ja Morant og félögum er á móti Florida State á sunnudaginn en það lið var sett í fjórða sætið þegar raðað var inn í úrslitakeppnina.

Hér fyrir neðan má sjá eitthvað af tilþrifum í þessum leik.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×