Körfubolti

Þetta ótrúlega og sögulega körfuboltaskot á afmæli í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Laettner í leiknum fræga með Duke á móti Kentucky.
Christian Laettner í leiknum fræga með Duke á móti Kentucky. Getty/John Biever
Margir þekkja Christian Laettner kannski bara sem eina áhugamanninn í draumaliði Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 en nokkrum mánuðum áður setti hann niður eina mögnuðustu sigurkörfuna í körfuboltasögu Bandaríkjanna.

Í dag eru einmitt 27 ár síðan þetta ótrúlega skot hjá Christian Laettner átti mikinn þátt í því að Duke liðið vann háskólatitilinn í Bandaríkjunum vorið 1992.

Laettner tryggði Duke þar 104-103 sigur á Kentucky í átta liða úrslitunum með ótrúlegri körfu og þar með sæti á úrslitahelginni þar sem liðið vann Indiana 81-78 og svo Michigan 71-51 í úrslitaleiknum.

Duke átti innkast undir eigin körfu en Grant Hill tókst að senda boltann yfir allan völlinn á Laettner sem náði að grípa bolta, snúa sér við og skora áður en leiktíminn rann út.

Þetta var glæsilegt skot hjá Laettner en líka geggjuð sending hjá Grant Hill sem átti seinna eftir að verða stórstjarna í NBA-deildinni áður en meiðslin fóru að taka sinn toll.





Það magnaða við þennan leik hjá Christian Laettner að hann hitti úr öllum skotum sínum í leiknum, tíu skotum utan af velli og öllum tíu vítaskotum að auki. Hann endaði með 31 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar.

Christian Laettner og félagar í Duke-liðinu voru þetta vor að vinna háskólatitilinn annað árið í röð en hann var síðan valinn í NBA-deildina um sumarið. Minnesota Timberwolves notaði þriðja valréttinn í nýliðavalinu í það að taka hann.

Laettner spilaði með draumaliði Bandaríkjanna á ÓL í Barcelona 1992 og vann Ólympíugull. Hann var með 4,8 stig og 2,5 fráköst að meðaltali í leik og skoraði eina körfu í úrslitaleiknum.  

Christian Laettner átti fín tímabil með Timberwolves áður en hann fór á flakk. Hann lék alls í NBA-deildinni í þrettán tímabil eða til ársins 2005. Laettner lék samtals 868 leiki fyrir sex lið í deildinni.

Hér fyrir neðan má sjá körfuna hans Christian Laettner frá 28. mars 1992.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×