Erlent

Morðinginn í Christchurch gaf austurrískum öfgamönnum fé

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá kröfugöngu hægriöfgamanna í Þýskalandi árið 2017. Stuðningsmenn Pegida-samtakanna veifa fána með tákn þjóðernishreyfingar hvíts fólks sem hefur dreift úr sér um Evrópu.
Frá kröfugöngu hægriöfgamanna í Þýskalandi árið 2017. Stuðningsmenn Pegida-samtakanna veifa fána með tákn þjóðernishreyfingar hvíts fólks sem hefur dreift úr sér um Evrópu. Vísir/EPA
Austurrísk stjórnvöld íhuga nú að banna starfsemi þarlends hægriöfgahóps eftir að í ljós kom að ástralskur karlmaður sem myrti tugi manna í tveimur moskum í Christchuch á Nýja-Sjálandi gaf leiðtoga hópsins fé.

Saksóknarar í Austurríki hafa staðfest að 28 ára gamall karlmaður sem er grunaður um að hafa skotið fimmtíu manns til bana í Christchurch hafi gefið Martin Sellner, leiðtoga Þjóðernishreyfingar Austurríkis (Identitarian Movement (IBÖ)), 1.500 evrur, jafnvirði rúmlega 200.000 króna. Einnig hefur verið staðfest að ástralski morðinginn heimsótti Austurríki í nóvember.

Sellner staðfestir að hann hafi fengið framlagið en hafnar því að hann tengist morðingjanum á nokkurn hátt. IBÖ eru hægriöfgasamtök sem eru andsnúin fjölmenningu og segjast „verja“ hvíta Evrópubúa fyrir innflytjendum frá Afríku og Miðausturlöndum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Hreyfingin hefur skotið rótum í nokkrum Evrópulöndum. Áhangendur hennar leigðu meðal annars skip til að reyna að stöðva för farandfólks yfir Miðjarðarhaf frá Líbíu árið 2017.  Aðhyllast þeir rakalausa samsæriskenningu um að innflytjendur muni ryðja hvítu fólki úr vegi á Vesturlöndum og gera að minnihluta.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, segir að yfirvöld rannsaki nú hvort að IBÖ teljist vera hryðjuverkasamtök. Leiði rannsókn það í ljós komi til greina að leysa samtökin upp.

Sellner segir að lögreglumenn hafi gert húsleit í íbúð hans í Vín á mánudag og lagt hald á síma hans, tölvu og fleiri raftæki.


Tengdar fréttir

Moskan opnuð á ný

Al-Noor moskan í Cristchurch, vettvangur mannskæðasta hryðjuverks í sögu Nýja-Sjálands, var opnuð á ný í nótt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×