Viðskipti erlent

Forstjóri Swedbank rekinn í kjölfar húsleitar tengdri peningaþvætti

Kjartan Kjartansson skrifar
Birgitte Bonnesen var yfir innra eftirliti Swedbank og var þannig yfir peningaþvættisvörnum bankans á þeim tíma sem peningaþvættið á að hafa átt sér stað.
Birgitte Bonnesen var yfir innra eftirliti Swedbank og var þannig yfir peningaþvættisvörnum bankans á þeim tíma sem peningaþvættið á að hafa átt sér stað. Vísir/EPA
Stjórn sænska bankans Swedbank hefur rekið Birgitte Bonnesen, forstjóra bankans, í skugga ásakana um að hann hafi tekið þátt í peningaþvætti í Eystrasaltslöndunum. Sænsk yfirvöld gerðu húsleit í höfuðstöðvum Swedbank í Stokkhólmi í gærmorgun.

Ásakanir um stórfellt peningaþvætti hafa vomað yfir norrænum stórbönkum undanfarin misseri, ekki síst Danske bank í Danmörku. Sá banki er sagður hafa þvættað jafnvirði hundruð milljarða króna fyrir óprúttna aðila í gegnum útibú í Eistlandi.

Í síðasta mánuði komu ásakanir fram um að Swedbank, einn stærsti banki Norðurlandanna, hefði einnig tekið þátt í peningaþvætti í Eystrasaltslöndunum. Bonnesen hafði ítrekað fullyrt að hún hefði trú á eftirliti bankans með peningaþvætti og að allar grunsamlegar færslur hefðu verið tilkynntar til yfirvalda.

Sænska fjármálaeftirlitið staðfesti að saksóknari hafi látið gera húsleit í höfuðstöðvum Swedbank í tengslum við áframhaldandi rannsókn á bankanum í gærmorgun.

Stjórn Swedbank ákvað í dag að leysa Bonnesen frá störfum. Vísaði Lars Idermark, stjórnarformaður hans, til vendinga undanfarinna daga sem hafi skapað mikinn þrýsting á bankann. Reuters-fréttastofan segir að tilkynningin um brottrekstur Bonnesen hafi komið klukkustund fyrir ársfund bankans sem hófst í dag.

Áður höfðu tveir af stærstu hluthöfum Swedbank sagst ætla að greiða atkvæði gegn því að bankinn leysti Bonnesen frá persónulegri ábyrgð á rekstri bankans á uppgjörsárinu 2018. Þá væri hægt að stefna Bonnesen vegna starfa hennar.

Stefnir fjármálakerfi Svíþjóðar í voða

Per Bolund, efnahagsmálaráðherra Svíþjóðar, fordæmdi hvernig stjórnendur Swedbank hafa haldið á málum í tengslum við peningaþvætti í dag. Ekki væri nóg að leysa Bonnesen frá störfum.

„Þau ættu að vinna með yfirvöldum en í staðinn hafa þau gert það gagnstæða og það er algerlega óásættanlegt. Það setur traust á Swedbank, á fjármálakerfinu í heild sinni og orðspor Svíþjóðar í uppnám,“ segir Bolund.

Breski fjárfestirinn Bill Browder, sem hefur sett fjölda ásakana um að norrænir bankar hafi tekið þátt í að þvætta illa fengið fé frá Rússlandi, kærði Swedbank til sænskra yfirvalda fyrr í þessum mánuði. Í kærunni kom fram að Swedbank hefði þvættað á annað hundrað milljóna dollara af fé sem spilltir rússneskir embættismenn hefðu dregið að sér.


Tengdar fréttir

Nordea dregst inn í peningaþvottarhneykslið

Í kæru til sænskra og norskra yfirvalda er því haldið fram að ágóði af stórfelldu fjársvikamáli í Rússlandi hafi verið þveginn í stærsta banka Norðurlandanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×