Erlent

Beto baðst afsökunar á ummælum um eiginkonu sína

Andri Eysteinsson skrifar
Beto O'Rourke hér á kosningafundi í Iowa-ríki
Beto O'Rourke hér á kosningafundi í Iowa-ríki Getty/ Chip Somodevilla
Forsetaframbjóðandi Demókrata Beto O‘Rourke hefur beðist afsökunar á ummælum um eiginkonu sína, skrifum sínum á internetið á yngri árum og viðurkenndi mistök sem hann gerði sem unglingur. Guardian greinir frá.

Beto ákvað í vikunni að sækjast eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum 2020 og bættist því enn í flóru frambjóðanda flokksins.

Beto var um sex ára skeið fulltrúi Texas í fulltrúadeild Bandaríkjaþings áður en hann sóttist eftir sæti í öldungadeild þingsins og fór þar gegn forsetaframbjóðandanum fyrrverandi Ted Cruz. Þrátt fyrir tap í kosningunum varð Beto fljótt stjarna innan Demókrataflokksins og var talinn líklegur forsetaframbjóðandi 2020.

Illa tekið í brandara um aðkomu Beto að barnauppeldi

O‘Rourke var gestur Political Party Live hlaðvarpsins í Iowa og svaraði þar gagnrýni á brandara sem hann hefur notað oft á tíðum á framboðsfundum. O‘Rourke hafði gantast með það að eiginkona hans, Amy Hoover Sanders, hafi alið upp börn hjónanna sem eru þrjú talsins en hann hafi stundum aðstoðað.

Þetta féll illa í kramið hjá stuðningsmönnum hans sem sögðu O‘Rourke gera lítið úr erfiðleikum einstæðra foreldra. Beto viðurkenndi að gagnrýnin ætti rétt á sér og sagðist ekki ætla að segja þetta aftur.

Beto sagðist einnig hafa dauðskammast sín eftir lestur á ofbeldisfullum skáldsögum sem hann skrifaði á spjallborð hakkarahóps sem hann var hluti af á yngri árum. „Ég dauðskammast mín en ég verð að bera ábyrgð á mínum orðum. Ég þarf hugsa um það sem ég sagði og reyna að gera betur,“ sagði O‘Rourke um sögu sem hann skrifaði 15 ára gamall og fjallaði um að keyrt væri á börn.

„Ég er ekki stoltur af þessu. Ég get ekki stjórnað því sem gerðist í fortíðinni. Ég get bara haft áhrif á það sem ég geri í framtíðinni og það sem ég ætla að gera er að gera mitt besta,“ sagði O‘Rourke.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×