Mia Garlick, talskona Facebook, á Nýja-Sjálandi, segir að myndbandið hafi verið fjarlægt fljótt, þó deila megi um það, og á einum sólarhring í kjölfar árásarinnar hafi notendur ítrekað reynt að birta myndbandið á nýjan leik, þrátt fyrir að yfirvöld og aðrir hafi beðið um að það yrði ekki gert.
Það hafi alls verið gert í um 1,5 milljónir skipta. Í meirihluta tilvika komust myndböndin þó aldrei í birtingu. Um 300 þúsund sinnum mun myndbandið hafa komist fram hjá sjálfvirkum búnaði Facbook. Ekki er vitað hve margir horfðu á myndbandið en því var einnig dreift á öðrum miðlum.
Garlick segir starfsmenn Facebook vinna hörðum höndum að því að stöðva birtingu efnis eins og þessa myndbands. Til þess beiti fyrirtækið jafnt sjálfvirkum búnaði og eftirliti starfsmanna.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir yfirvöld þar gera það sem þau geta til að koma í veg fyrir birtingu myndbandsins og mynda frá því. Ábyrgðin sé þó hjá samfélagsmiðlafyrirtækum eins og Facebook.
Íhuga að hætta að auglýsa
Tvö regnhlífarsamtök auglýsenda á Nýja-Sjálandi hafa hvatt meðlimi sína til að hætta að birta auglýsingar á samfélagsmiðlum í kjölfar árásarinnar. Þannig væri hægt að beita fyrirtækin þrýstingi til að taka á dreifingu boðskapar haturs á samfélagsmiðlum þeirra.Lotto NZ hefur þegar tekið þá ákvörðun og samkvæmt Reuters eru ýmis fyrirtæki að skoða það. Forsvarsmenn ASB Bank, eins stærsta banka landsins, eru til að mynda að íhuga að hætta auglýsingum á samfélagsmiðlum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Facebook Live er notað til að birta ódæðisverk í beinni útsendingu. Til að mynda má benda á atvik þar sem Steve Stevens gekk upp að eldri manni í Cleveland í Bandaríkjunum og skaut hann til bana árið 2017. Þá myrti taílenskur maður ellefu mánaða dóttur sína í beinni á Facebook sama ár.
Um tuttugu þúsund manns vinna við að fara yfir kvartanir sem Facebook berst vegna efnis á Facebook og Instagram. Gagnrýnendur segja það þó ekki nóg og þrýstingur á Facebook og önnur samfélagsmiðlafyrirtæki er sífellt að aukast. Yfirvöld víða um heim hafa rætt að grípa til eigin aðgerða gegn samfélagsmiðlafyrirtækjunum.
Að þessu sinni snýr gagnrýnin þó ekki eingöngu að samfélagsmiðlum heldur einnig fjölmiðlum. Netmiðlar nokkurra breskra fjölmiðla birtu hluta úr myndbandinu af árásinni. Þar á meðal var Mirror en myndbandið var fjarlægt og hafa forsvarsmenn miðilsins beðist afsökunar.
Þá hafa yfirvöld í Ástralíu opnað rannsókn á því hvort að fjölmiðlar þar í landi hafi brotið lög með birtingu hluta myndbandsins.