Innlent

Heilbrigðiseftirlitið gaf Fossvogsskóla næst hæstu einkunn

Bergur Garðarsson skrifar

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf Fossvogsskóla næst hæstu einkunn í reglubundnu eftirliti í nóvember. Fossvogsskóla var lokað vegna raka-og loftgæðamála rúmum fjórum mánuðum síðar. Deildarstjóri Umhverfiseftirlits borgarinnar segir farið að verklagsreglum við eftirlit sem fer fram einu sinni á ári í grunnskólum borgarinnar.



Á stuttum tíma hefur Reykjavíkurborg þurft að ráðast í útttektir eða umbætur vegna raka og myglu í fjórum grunnskólum borgarinnar. 

Raki eða grunur um raka í fjórum skólum

Í gær var gerð úttekt á Seljaskóla, umbætur eru í gangi í Breiðholtsskóla og beðið er niðurstöðu úr mælingum úr Ártúnsskóla. Þá lokaði Fossvogsskóla fyrr í þessum mánuði vegna raka og lélegra loftgæða en þar þarf að ráðast í umfangsmiklar úrbætur en ráðgert er að skólastarf hefjist þar að nýju í haust.

Gaf Fossvogsskóla fjóra af fimm í einkunn 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur eftirlit með hollustuháttum í Reykjavík og fer í vettvangsferðir einu sinni á ári í skóla borgarinnar. Margir þættir eru kannaðir. Þeirra á meðal eru loftgæði, raki, raka-og lekaskemmdir og spurt er um þekkt raka-og lekavandamál. Byggingarefnum er hins vegar ekki raskað. 



Heilbrigðiseftirlitið gaf Fossvogsskóla fjóra af fimm í einkunn í nóvember sem þýðir að kröfur hafi verið uppfylltar en einhverjar ábendingar hafi verið gerðar. Engar þeirra voru sérstaklega vegna raka. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fékk engar kvartanir um húsnæði Fossvogsskóla við reglubundið eftirlit í nóvember að sögn Rósu Magnúsdóttur deildarstjóra Umhverfiseftirlits eftirlitsins.

Engar kvartanir bárust

Rósa Magnúsdóttir deildarstjóri Umhverfiseftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur segir að við eftirlitið hafi öllum verklagsreglum verið fylgt. 



„Húsnæðið var skoðað samkvæmt okkar verklagsreglum og gengið um það með ábyrgðaraðila innan skólans og spurt eins og venjulega hvort það væru einhverjar sérstakar ábendingar um eitthvað sem ekki væri í lagi. Svo var ekki,“ segir Rósa.   



Rósa tekur fram að raki og rakaskemmdir sem síðar hafi fundist hafi til dæmis verið í kennaraaðstöðu sem Heilbrigðiseftirlitið kanni ekki heldur Vinnueftirlitið sem hafi umsjón með rými kennara í grunnskólum borarinnar. Þá hafi engar kvartanir komið fram við eftirlit Heilbrigðiseftirlitsins í nóvember. 



„Okkur var ekki sýnt neitt sérstaklega að það væru vandamál. Alls ekki. Við fengum heldur ekki ábendingar frá foreldrum eða öðrum en við að sjálfsögðu tökum á móti kvörtunum eða einhverjar eru frá almenningi eða öllum,“ segir Rósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×