Innlent

Warner og Universal hafna fullyrðingum Jóhanns Helgasonar í LA

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Jóhann Helgason í Hljóðrita þar sem Söknuður var tekinn upp.
Jóhann Helgason í Hljóðrita þar sem Söknuður var tekinn upp. Fréttablaðið/Eyþór
Lögmenn lögmannsstofunnar Loeb & Loeb í Bandaríkjunum, sem gætir hagsmuna fjögurra fyrirtækja sem stefnt er í höfundarréttarmáli Jóhanns Helgasonar, hafa skilað sinni fyrstu greinargerð í málinu til alríkisdómstólsins í Los Angeles. Öllum kröfum Jóhanns er hafnað en ekki er gerð athugasemd við að málið verið rekið í Los Angeles.

Um er að ræða fyrirtækin Warner Bros. Records, Universal-Polygram International Publish­ing, UMG Recordings og Peer­music.

Eins og fram hefur komið telur Jóhann Helgason að lagið You Raise Me Up sé í raun stuldur á lagi hans Söknuði sem kom út á plötu Vilhjálms Vilhjálmssonar árið 1977.

Fyrirtækjunum Spotify og Apple – vegna iTunes – sem upphaflega var einnig stefnt í málinu hefur af hálfu Michaels Machat, lögmanns Jóhanns, verið sleppt úr stefnunni í bili til að einfalda málareksturinn. Þau og fleiri aðilar sem Jóhann telur hafa hagnast af hugverki hans í gegn um You raise me up gætu bæst við stefnuna á síðari stigum.

Höfundar lags og texta You raise me up, hinn norski Rolf Løvland og Írinn Brendan Graham, hafa enn ekki tilnefnt lögmenn til þess að verjast stefnu Jóhanns fyrir sitt leyti.

Dómarinn Andre Birotte Jr. ákvað 8. febrúar síðastliðinn að lögmenn aðila mæti í fyrsta sinn í dóminn 10. maí næstkomandi til að ákveða dagskrá málsins í framhaldinu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×