Lífið

Ellý sagði hágrátandi já og norðurljósin dönsuðu á himni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ellý og Hlynur eru hamingjusöm saman.
Ellý og Hlynur eru hamingjusöm saman.
Fjölmiðla- og listakonan Ellý Ármannsdóttir og Hlynur Jakobsson eigandi veitingarstaðarins Hornið eru trúlofuð en Hlynur greindi frá því á Facebook í gærkvöldi og skrifaði þá eins og lög gera ráð fyrir: „Hún sagði JÁ“. Hlynur birti einnig mynd af tveimur fallegum hringjum sem komnir voru upp.

Hlynur hafði verið utan við sig

Ellý hefur slegið rækilega í gegn að undanförnu með því að mála og teikna myndir sem hafa verið að vekja mikla athygli. Ellý og Hlynur fóru að vera saman snemma á síðasta ári og hefur ástin blómstrað hjá parinu síðan.

Ellý lýsir gærkvöldinu sem því besta á lífsleiðinni, sem er djúpt í árinni tekið því Ellý hefur lifað ævintýralegu og viðburðaríku lífi og birtir hún fallegt norðurljósamyndband á Instagram í leiðinni.

Jakob pabbi Hlyns, Hlynur, Ellý, Ólöf systir Hlyns og Jósi maður hennar Ólafar á Menningarnótt í fyrra eftir að þau hlupu 10 km.
„Hlynur var búinn að vera eitthvað utan við sig síðustu daga en mig grunaði ekki að hann myndi biðja mín,“ segir Ellý og reynir ekki að leyna ánægju sinni og hamingju í samtali við fréttastofuna.

Samdi sérstakt bónorðslag

„Gærdagurinn var dagurinn sem við kynntumst fyrir nákvæmlega einu ári og þér að segja höfum við verið óaðskiljanleg síðan. Við fórum í göngutúr í kringum tjörnina  í gærkvöldi eins og við gerum svo oft og Hlynur rétti mér símann sinn til að sýna mér myndband sem hann hafði gert þar sem hann söng til mín og spilaði á píanó lag og texta sem hann samdi fyrir mig,“ segir Ellý sem fór að hágráta af einskærri hamingju við þetta tækifæri. „Þetta fallega lag endaði á setningunni: Viltu giftast mér?“

Og það var sem við manninn mælt, þá gerðust undur og stórmerki:

„Heyrðu, heldur þú ekki að norðurljósin hafi þá birst og dansað fyrir ofan okkur og allt í kring. Þegar ég var að reyna að átta mig á spurningunni þá var Hlynur kominn niður á skeljarnar og ég hágrátandi enn þá. Ég svaraði strax já.“





 
 
 
View this post on Instagram
#northernlights #northernlightsiceland besta kvöld lífs míns @hlynursolvi

A post shared by Elly Armanns (@ellyarmannsdottir) on Jan 31, 2019 at 3:21pm PST






Fleiri fréttir

Sjá meira


×