Erlent

Fyrrum konungur neitar að gangast undir faðernispróf

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Albert II á góðri stundu.
Albert II á góðri stundu. Mark G. Renders/Getty
Albert II, fyrrum konungur Belgíu, hefur neitað að gangast undir DNA-próf sem ætlað er að skera úr um hvort hann feðraði lausaleiksbarn á sjöunda áratug síðustu aldar.

Dómstóll í Brussel, höfuðborg Belgíu, hefur skipað hinum fyrrverandi þjóðhöfðingja að skila frá sér munnvatssýni innan þriggja mánaða, ellegar eigi hann á hættu að vera álitinn faðir hinnar fimmtugu Delphine Boël, en móðir hennar, barónessan Sybille de Selys Longchamps, segist hafa átt í leynilegu ástarsambandi við Albert í um tvo áratugi.

Þrátt fyrir niðurstöðu dómsins um að Alberti beri að skila af sér sýninu hefur hann neitað og er nú sagður leita álits hjá lögfræðingum sínum um hvort mögulegt sé að áfrýja niðurstöðunni.

Albert lét af embætti konungs árið 2013, eftir að hafa setið í hásætinu frá árinu 1993. Ástæða þess að konungurinn afsalaði sér völdum er sögð hafa verið léleg heilsa hans, en því hefur einnig verið velt upp hvort staðhæfingar barónessunnar um hið meinta ástarsamband hafi haft áhrif á ákvörðun Alberts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×