Erlent

Skriðu í gegn um holræsi til að ræna banka í Antwerpen

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rannsóknarlögreglumenn í belgísku borginni Antwerpen rannsaka nú bankarán sem ætti heldur heima á hvíta tjaldinu en í raunveruleikanum. 

Lögregla var kölluð út seint á sunnudagskvöld til að bregðast við viðvörunarbjöllu í útibúi BNP bankans í Antwerpen. Við nánari athugun virðast ræningjarnir hafa nýtt sér holræsi borgarinnar til að grafa sér leið inn í bankann.

Þeir virðast hafa haft sér höfuðstöðvar í húsi í nágrenni við útibúið. Þaðan hafa þeir grafið sér göng ofan í holræsið og fikrað sig þaðan undir bankann. Þá tók við meiri mokstur, um fjögurra metra löng göng, inn í bankaútibúið.

Ekki er búið að hafa upp á ræningjunum en lögregla kempir nú holræsin í leit að vísbendingum. Talskona skólphreinsifyrirtækis í borginni segir að það sé ótrúlegt að þeir hafi afrekað þetta og séu enn á lífi.

„Í fyrsta lagi er hættulegt fyrir ræningjana að grafa þarna göng þar sem hætta er á jarðsigi,“ segir Els Lieken hjá fyrirtækinu Aquafin. „inni í holræsinu er líka mikil hætta til dæmis á skyndilegri hækkun vatnsyfirborðs og á brennisteinsvetni úr skólpvatninu.“  

Þá er ljóst að þeir hafi þurft að skríða langa leið í gegn um skólpið en á kafla eru göngin einungis um 40 sentímetrar í þvermál. 

Eigandi hússins þaðan sem ræningjarnir grófu sér leið ofan í holræsið grunaði ekki neitt en hann leigði tveimur bræðrum kjallaraíbúð þar sem göngin fundust.

„Þeir settu allan sandinn í plastpoka í svefnherbergi í íbúðinni þannig að enginn tók eftir neinu,“ segir Marijn Vercauteren, leigusali bræðranna.

„Einhverjir nágrannar sögðust hafa heyrt grunsamleg hljóð. En þegar nágrannar eru með einhver smávegis læti kippir maður sér ekkert upp við það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×