Skoðun

M.Sc. í áhrifa- valdafræði

María Bjarnadóttir skrifar
Flestir foreldrar vilja undirbúa börnin sín vel fyrir framtíðina. Helst viljum við auðvitað að þau hafi yfir að ráða eiginleikum eða reynslu sem atvinnulíf framtíðarinnar ofmetur að verðleikum svo þau hafi fjárhagslega burði til þess að „vinna til að lifa, ekki lifa til að vinna“ og geti orðið „besta útgáfan af sjálfum sér“.

Það er átakanlegt fyrir okkur foreldra nútímans að horfast í augu við að hugsanlega þýðir þetta að ungarnir okkar muni ekki starfa við eitthvað almennilegt eins og rafvirkjun eða lögmennsku, heldur sem youtubarar eða áhrifavaldar. Hvernig kemur það heim og saman við sannleikann um að sprenglæring úr háskóla sé lykillinn að einbýlishúsi og sportjeppa? Nú hefur spænskur háskóli svarað þessari spurningu með meistaranámi í áhrifavalda- og vídeóbloggarafræði. Skólinn telur námið veita nemendum forskot til að ná árangri í þessum vinsælustu störfum 21. aldarinnar. Er hræðilega gamaldags að setja spurningamerki við þetta?

Auðvitað hefur tækniframþróun alltaf haft áhrif á atvinnumarkaðinn. Á leiðinni hafa tapast og myndast ótal starfsstéttir. Spurningin er hverju foreldrar eiga að vera að hlúa að hjá blessuðum börnunum til þess að forða þeim frá örlögum Luktar-Gvendar á vinnumarkaði.

Þetta skapar áleitnar uppeldisspurningar. Eru tímatakmarkanir á Fortnite-spilamennsku grunnskólabarna að koma í veg fyrir atvinnumannaferil í Fortnite-dansi? Kemur bann á TikToc núna í veg fyrir nauðsynlega þjálfun í framsögn fyrir feril í hólógrafískri fjölmiðlun síðar? Eða er þetta tapað hvort eð er því að róbótarnir verða búnir að taka yfir áður en fyrsti nemandinn útskrifast með meistaragráðu í áhrifavaldafræði?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×