Skoðun

Góð þjónusta í Garðabæ

Gunnar Einarsson skrifar
Á dögunum voru niðurstöður í árlegri þjónustukönnun Gallup kynntar þar sem viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögunum eru mæld. Garðbæingar geta verið stoltir þar sem sveitarfélagið lendir í 1. sæti í sex af þrettán viðhorfsspurningum. Garðabær lendir í fyrsta sæti þegar spurt er um ánægju íbúa með þjónustu leikskóla, grunnskóla, þjónustu við barnafjölskyldur, almennt um skipulagsmál og þjónustuna á heildina litið. Einnig lendir Garðabær í fyrsta sæti þar sem spurt er um hversu vel eða illa starfsfólk bæjarins hefur leyst úr erindum íbúa. Garðabær er í flestum spurningum í efstu sætum og meðaltal úr öllum spurningum er hærra í öllum tilvikum nema í einni spurningu í samanburði við önnur sveitarfélög. Þessar góðu niðurstöður eru fyrst og fremst framúrskarandi starfsfólki að þakka.

Garðabær hefur nýtt þessa árlegu könnun Gallup sem tæki til að bæta þjónustu bæjarins. Á þar síðasta ári voru settir á fót rýnihópar til að greina hvað mætti bæta í þjónustu við fatlað fólk, barnafjölskyldur, eldri borgara og við úrlausn erinda. Eftir þá vinnu var m.a. bætt við starfsmanni á fjölskyldusviði og uppbygging á búsetukjarna fyrir fatlað fólk hefur verið í fullum gangi. Niðurstöður nýrrar könnunnar sýna að enn meira þarf að leggja t.d. í málaflokk fatlaðs fólks. Við viljum gera enn betur og munum setja aukna vinnu í þann málaflokk.

Við erum stolt af háu þjónustustigi á sama tíma og álögum er haldið í lágmarki. Garðabær var það sveitarfélag sem skoraði hæst í rekstrarsamanburði í skýrslu Samtaka atvinnulífsins þar sem fjármál 12 stærstu sveitarfélaga landsins voru skoðuð. Þar kom fram að ánægja íbúa með leik- og grunnskóla er mest þar sem reksturinn er traustur og skilvirkni mikil.

Garðbæingar eru almennt kröfuharðir um góða þjónustu og reglulega berast góðar ábendingar um bætta þjónustu bæjarins. Alltaf er hægt að bæta þjónustuna og við viljum gera Garðabæ enn betri!

Höfundur er bæjarstjóri Garðabæjar




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×