Guðbjörg kom fyrst inn í hluthafahóp tryggingafélagsins á árinu 2016 þegar félagið Kristinn ehf., sem er í eigu Guðbjargar og fjölskyldu, hóf að fjárfesta í TM en í árslok 2017 nam eignarhlutur félagsins 0,7 prósentum. Á síðustu vikum og mánuðum hefur félagið, samkvæmt þremur heimildarmönnum Markaðarins, hins vegar verið að byggja hratt upp stöðu sína í TM með kaupum á bréfum sem eru fjármögnuð hjá Íslandsbanka. Ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um nákvæmlega hversu stóran hlut félag Guðbjargar á orðið í TM, einkum á grundvelli framvirkra samninga, en ljóst er að eignarhluturinn er ekki stærri en samtals fimm prósent enda væri félaginu þá að öðrum kosti skylt að tilkynna um það til Kauphallarinnar.

Stærstu hluthafar TM eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR, Gildi og Birta lífeyrissjóður. Aðrir umsvifamiklir fjárfestar í eigendahópi félagsins eru erlendir sjóðir í stýringu Lansdowne og Miton og þá er eignarhaldsfélagið Helgafell, sem er stýrt af Jóni Sigurðssyni, fjárfesti og stjórnarformanni Stoða, með rúmlega 6,6 prósenta hlut.
Guðbjörg þekkir vel til TM en hún var aðaleigandi tryggingafélagsins á árunum fyrir fall fjármálakerfisins og samhliða því sat hún í stjórn félagsins. Hún seldi hins vegar eignarhlut sinn í TM að stærstum hluta haustið 2007 til Glitnis.
Eignarhaldsfélagið Fram, sem er móðurfélag Kristins ehf., átti eignir upp á samtals um 36 milljarða króna í árslok 2017 en á sama tíma námu skuldirnar aðeins rúmlega 516 milljónum króna. Eigið fé félagsins var því um 35,5 milljarðar króna. Auk þess að vera eigendur að Ísfélagi Vestmannaeyja, einu stærsta útgerðarfélagi landsins, eru félög í eigu Guðbjargar og fjölskyldu meðal annars í hópi helstu hluthafa í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, og heildsölurisanum Íslensk-Ameríska (ÍSAM).