Að minnsta kosti fimm eru sagðir látnir eftir að karlmaður á þrítugsaldri hóf skothríð í banka í bænum Sebring á Flórída í Bandaríkjunum í dag. Árásarmaðurinn er sagður hafa tilkynnt lögreglu um skotárásina sjálfur og gafst á endanum upp eftir stutt umsátur.
Árásin átti sér stað í SunTrust-bankanum í Sebring, um 150 kílómetra suður af Orlando, skömmu eftir klukkan hálf eitt að staðartíma, um klukkan hálf sex síðdegis að íslenskum tíma.
Sérsveit lögreglunnar fór inn í bankann og hélt áfram viðræðum við byssumanninn sem hafði fram að því hafnað því að yfirgefa bygginguna. Reuters-fréttastofan segir að hann hafi á endanum gefist upp.
Ekki liggur fyrir hvort að fleiri hafi særst í árásinni og frekari upplýsingar um þá sem féllu hafa ekki komið fram. Árásarmaðurinn er sagður 21 árs gamall bæjarbúi í Sebring þar sem um tíu þúsund manns búa.
Fimm féllu í skotárás í banka á Flórída
Kjartan Kjartansson skrifar
