Körfubolti

Fyrirliðarnir og byrjunarliðin klár í Stjörnuleik NBA 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Giannis Antetokounmpo.
LeBron James og Giannis Antetokounmpo. Mynd/Twitter/NBA
LeBron James hjá Los Angeles Lakers og Giannis Antetokounmpo hjá Milwaukee Bucks verða fyrirliðarnir í Stjörnuleik NBA-deildarinnar í ár og fá því að kjósa sér leikmenn í sín lið.

LeBron James fékk flest atkvæði allra í Vesturdeildinni en Giannis Antetokounmpo fékk flest atkvæði í Austurdeildinni. Leikurinn sjálfur fer fram í Charlotte 17. febrúar næstkomandi.





Þetta er í fimmtánda skiptið sem LeBron James er kosinn í stjörnuleikinn en í fyrsta sinn sem leikmaður úr Vesturdeildinni því fyrir þetta tímabil hafði hann aðeins spilað með liðum í Austurdeildinni (Cleveland Cavaliers og Miami Heat).





Það er líka ljóst hverjir verða í byrjunarliðunum. Úr Vesturdeildinni verða einnig í byrjunarliðinu þeir Paul George hjá Oklahoma City Thunder, Stephen Curry og Kevin Durant hjá Golden State Warriors og James Harden hjá Houston Rockets. Anthony Davis hjá New Orleans Pelicans var mjög nálægt því að komast í byrjunarliðið á kostnað Paul George.

Úr Austurdeildinni verða líka í byrjunarliðunum Kawhi Leonard hjá Toronto Raptors, Joel Embiid hjá Philadelphia 76ers, Kemba Walker hjá Charlotte Hornets og Kyrie Irving hjá Boston Celtics.





Luka Doncic, slóvenski nýliðinn hjá Dallas Mavericks, komst ekki í byrjunarliðið þrátt fyrir góða kosningu en honum vantaði fleiri atkvæði frá öðrum leikmönnum í deildinni sem höfðu 25 prósent vægi. Doncic hefur slegið í gegn á sínu fyrsta tímabili en hann var valinn númer þrjú síðasta sumar.





Þjálfarar í NBA-deildinni munu velja restina af leikmönnunum í leikinn og þegar allur leikmannalistinn er klár þá munu þeir LeBron James og Giannis Antetokounmpo skiptast á að kjósa í lið. Sú kosning verður í beinni sjónvarpsútsendingu á TNT 7. febrúar.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×