Tveir menn á mótorhjóli keyrðu upp að bifreið Hussein-Suale og skutu hann til bana með þremur skotum. Hann lést á staðnum.
Hussein-Suale var einn af aðalmönnunum sem notuðu faldar myndavélar og villtu á sér heimildir til þess að fletta ofan af spillingunni í Gana. Þeir gripu fjölmarga innan hreyfingarinnar að því að þiggja mútur.
Þar á meðal sjálfan formann knattspyrnusambandsins, Kwesi Nyantakyi. Sá var á endanum settur í lífstíðarbann frá knattspyrnu og stjórnvöld í Gana tóku yfir rekstur knattspyrnusambandsins.
Hussein-Suale eignaðist því marga volduga óvini og er talið að einhver þeirra standi að baki morðinu.
Þingmaðurinn Kennedy Agyapong var mjög ósáttur við blaðamennskuna og hvatti landa sína til þess að ganga í skrokk á Hussein-Suale. Það er sláandi að sjá þetta viðtal.
Sad news, but we shall not be silenced. Rest in peace, Ahmed. #JournalismIsNotACrime#SayNoToCorruptionpic.twitter.com/Gk2Jdgo6Sn
— Anas Aremeyaw Anas (@anasglobal) January 17, 2019
Ofbeldi gegn blaðamönnum í Gana er ekki algengt en aðeins einn blaðamaður hafði verið myrtur í landinu áður. Það var árið 1992.