Fótbolti

„Ein­stak­lega efni­legur leik­maður“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thelma Karen Pálmadóttir í sínum fyrsta A-landsleik á móti Norður-Írlandi á dögunum.
Thelma Karen Pálmadóttir í sínum fyrsta A-landsleik á móti Norður-Írlandi á dögunum. Vísir/Anton Brink

Sænsku meistararnir í Häcken hafa samið við hina íslensku Thelmu Pálmadóttur, sem kemur frá FH í Hafnarfirði. Þessi sautján ára gamli framherji kemur til liðsins eftir að hafa sprungið út með FH í sumar.

„Hún er einstaklega efnilegur leikmaður,“ sagði Martin Ericsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá BK Häcken, í frétt á heimasíðu félagsins.

Thelma Pálmadóttir var fastamaður á síðasta tímabili hjá Hafnarfjarðarliðinu sem endaði í öðru sæti í íslensku deildinni og skoraði hún átta mörk. Hún lýsir flutningnum til BK Häcken sem stóru skrefi á ferlinum, skrefi sem hún er stolt af að taka.

„Þetta er frábær tilfinning. Þetta er stórt félag og það er heiður að fá að klæðast treyjunni og vera hluti af þessu liði,“ sagði Thelma á heimasíðu félagsins.

Þegar fyrirspurnin kom var ákvörðunin auðveld, segir hún. „Ég varð virkilega spennt. Þetta er risastórt tækifæri sem ég vil ekki missa af, svo ég varð mjög glöð og spennt,“ sagði Thelma.

Samningurinn er til þriggja ára, til og með ársins 2028. BK Häcken sér í Thelmu einstaka hæfileika sem hún getur þroskað og þróað hjá félaginu

„Hún passar vel inn í umhverfið okkar og okkar módel,“ sagði Martin Ericsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá sænska félaginu.

„Thelma er sóknarsinnaður leikmaður með fína tækni og spennandi líkamsbyggingu með hæð sinni, hraða og hlaupastyrk. Henni líkar vel við að sækja á opnum velli og tekur oft á varnarmann sinn einn á einn. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til knattspyrnufélagsins,“ sagði Martin Ericsson,

Thelma sjálf lýsir sér sem sóknarsinnuðum og ákveðnum leikmanni í viðtali á heimasíðu Häcken, með skýran vilja til að hafa áhrif á leiki á síðasta þriðjungi vallarins.

„Þetta er mjög spennandi, Svíþjóð er heillandi land. Ég hlakka til að búa hér, prófa eitthvað nýtt og þroskast á mörgum sviðum,“ sagði Thelma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×