Erlent

Netflix fjarlægir gamanþátt eftir kvörtun Sáda

Kjartan Kjartansson skrifar
Hasan Minhaj dró leiðtoga Sádi-Arabíu saman í háði í Netflix-þætti sínum. Það féll ekki í kramið í Ríad.
Hasan Minhaj dró leiðtoga Sádi-Arabíu saman í háði í Netflix-þætti sínum. Það féll ekki í kramið í Ríad. Vísir/Getty
Streymisþjónustan Netflix hefur fjarlægt bandarískan gamanþátt þar sem gagnrýni kom fram á ráðamenn í Sádi-Arabíu eftir að stjórnvöld þar í landi kvörtuðu. Sádar telja þáttinn brot á lögum um tölvuglæpi.

Í öðrum þætti „Föðurlandsvinarlaganna“ [e. Patriot Act], gamanþætti bandaríska grínarans Hasans Minhaj, gagnrýnir Minhaj sádiarabíska krónprinsinns Mohammed bin Salman vegna morðsins á Jamal Khashoggi á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í október og stríðsrekstur Sáda í Jemen. Bandaríska leyniþjónustan telur að Salman hafi skipað fyrir um morðið á blaðamanninum.

Þátturinn fór fyrir brjóstið á sádiarabískum stjórnvöldum sem lögðu fram formlega kvörtun til Netflix. Forráðamenn streymisþjónustunnar segjast virða listrænt frelsi en að hún hafi þurft að virða lög í Sádi-Arabíu. Þátturinn er því ekki lengur aðgengilegur sádiarabískum áhorfendum á Netflix. Þeir geta þó enn sé hann á Youtube, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Khashoggi skrifaði meðal annars pistla fyrir Washington Post en hann var búsettur í Virginíu. Karen Attiah, ritstjóri Khashoggi hjá blaðinu, gagnrýndi ákvörðun Netflix harðlega í tísti í gær. Sagði hún Minhaj hafa verið sterka, hreinskilna og fyndna rödd gegn Sádi-Arabíu og Salman krónprins eftir morðið á Khashoggi og hafa vakið athygli á ástandinu í Jemen.

„Virkilega hneykslanlegt að Netflix hafi tekið út einn af þáttum hans sem var gagnrýninn á Sádi-Arabíu,“ tísti hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×