Viðskipti innlent

Nafnlausi víkur fyrir nýjum veitingastað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nafnlausi Pizzastaðurinn var rekinn í húsnæðinu á horni Hverfisgötu og Ingólfsstræti
Nafnlausi Pizzastaðurinn var rekinn í húsnæðinu á horni Hverfisgötu og Ingólfsstræti Vísir/Stefán
Nafnlausa pizzustaðnum við Hverfisgötu 12 hefur verið lokað. Húsnæðið mun hýsa nýjan veitingastað sem opnar síðar í vikunni.

Frá þessu hafa aðstandendur þess nafnlausa greint frá á Facebook-síðu staðarins undanfarna daga, til að mynda við ljósmynd af síðustu pizzunni sem fór í gegnum eldofn staðarins, en hún skartaði trufflumajónesi og klettasalati.

Pizzastaðurinn við Hverfisgötu 12 var opnaður á vormánuðum ársins 2014 og vakti strax athygli, þá ekki síst fyrir nafnleysið sem vafðist fyrir mörgum. Að endingu var hann því einfaldlega kallaður „Nafnlausi Pizzustaðurinn.“

Sem fyrr segir mun nýr veitingastaður opna í rýminu sem hýsti þann nafnlausa. Þó mun nýi staðurinn reiða sig á innréttingar og húsbúnað nafnlausa staðarins, að sögn aðstandenda. Gestir og gangandi munu geta tekið hús á nýja staðnum á fimmtudag, þann 10. janúar.

Sá staður mun bætast í líflega veitingahúsaflóruna sem fyrirfinnst á Hverfisgötu 12. Auk nafnlausa staðarins má þar finna knæpuna Mikkeller & Friends og margverðlaunaða veitingastaðinn Dill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×