Körfubolti

Fyrstu liðsfélagarnir með þrennu í sama leiknum í ellefu ár

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ekki allir fá að spila með átrúnaðargoðum sínum, hvað þá að skrifa sig í sögubækurnar með þeim
Ekki allir fá að spila með átrúnaðargoðum sínum, hvað þá að skrifa sig í sögubækurnar með þeim vísir/getty
LeBron James og Lonzo Ball urðu fyrstu samherjarnir til þess að ná báðir í þrefalda tvennu í einum og sama leiknum í NBA deildinni síðan árið 2007 þegar Los Angeles Lakers unnu Charlotte Hornets í nótt.

James setti 24 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar og Ball var með 16 stig, 10 stoðsendingar og 10 fráköst í 128-100 sigrinum í Charlotte.

Síðasta parið til þess að ná þessu voru Jason Kidd og Vince Carter fyrir New Jersey Nets í apríl 2007. Tveir leikmenn Lakers hafa ekki náð þrennu saman síðan Magic Johnson og Kareem Abdul-Jabbar gerði það í janúar 1982.

„Síðan hann kom hingað hefur þetta verið eins og að lifa í draumi. Ég horfði á hann spila allt mitt líf, hann var átrúnaðargoðið mitt í æsku. Ég held mig hafi hins vegar aldrei dreymt um að við næðum báðir þrefaldri tvennu í sama leiknum,“ sagði Ball sem var að ná sinni fyrstu þrennu á tímabilinu.







Þreföldu tvennurnar héldu sig ekki bara í Charlotte því James Harden er kominn á flug og setti sína aðra þrennu í röð í sigri Houston Rockets á Memphis Grizzlies.

Houston hefur nú unnið þrjá leiki í röð eftir 105-97 sigurinn. Harden skoraði 32 af stigunum 105 og bætti við 12 fráköstum og 10 stoðsendingum.

Clint Capela bætti við 26 stigum fyrir Rockets og Gerald Green 17. Í liði Memphis var Mike Conley atkvæðamestur með 22 stig.







Chicago Bulls náði ótrúlegri endurkomu í seinni hálfleik í Texas og vann San Antonio Spurs með fimm stigum eftir að hafa verið 21 stigi undir.

Kris Dunn skoraði 24 stig og Lauri Markkanen 23 í 98-93 leiknum. Chicago vann seinni hálfleikinn 55-31 og vann sinn annan sigur í röð.

Leikmenn Chicago töpuðu boltanum aðeins þrisvar í seinni hálfleik og spiluðu frábæran varnarleik, héldu San Antonio í 16 og 15 stigum í þriðja og fjórða leikhluta.







Úrslit næturinnar:

Orlando Magic - Utah Jazz 96-89

Charlotte Hornets - Los Angeles Lakers 100-128

Detroit Pistons - Boston Celtics 113-104

Memphis Grizzlies - Houston Rockets 97-105

San Antonio Spurs - Chicago Bulls 93-98

Oklahoma City Thunder - LA Clippers 110-104

Phoenix Suns - Minnesota Timberwolves 107-99

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×