Innlent

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka í 600 þúsund krónur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Greiðslurnar voru hækkaðar um 20 þúsund krónur síðustu áramót.
Greiðslurnar voru hækkaðar um 20 þúsund krónur síðustu áramót. Vísir/vilhelm
Greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi munu hækka um 80 þúsund krónur á mánuði um áramótin. Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra hefur undirritað reglugerð þess efnis en greiðslurnar hækka úr 520 þúsund krónum í 600 þúsund krónur á mánuði.

Haft er eftir Ásmundi á vef Stjórnarráðsins að hækkunin sé mikilvæg og sýni í verki áherslur stjórnvalda á eflingu stuðnings við börn og barnafjölskyldur.

„Við hækkuðum hámarksgreiðslurnar um 20.000 í byrjun þessa árs. Nú stígum við stærra skref með umtalsverðri hækkun sem er til þess fallin að koma tekjulágum foreldrum til góða.“

Sjá einnig: Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka í 520.000 krónur

Ráðherra segir áfram verða unnið að því að styðja betur við foreldra í fæðingarorlofi og þar sé meðal annars horft til þess að lengja fæðingarorlofið.

„Þetta er mikilvægt velferðarmál og eins vil ég nefna sérstaklega að þetta er tvímælalaust lóð á vogarskálar aukins kynjajafnréttis.“

Hækkunin tekur gildi 1. janúar 2019. Aukin framlög ríkisins vegna hækkunar hámarksgreiðslna fæðingarorlofs um áramótin eru áætluð um 1,8 milljarður króna á ársgrundvelli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×