Fótbolti

Álasund áfram í B-deildinni eftir tap gegn Stabæk

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hólmbert í leik með Álasund fyrr á leiktíðinni.
Hólmbert í leik með Álasund fyrr á leiktíðinni. mynd/facebook Álasund
Íslendingaliðið Álasund mun ekki leika í deild þeirra bestu í Noregi eftir að liðið tapaði í umspili gegn Stabæk um síðasta lausa sætið í deildinni á næsta ári.

Fyrri leikur liðanna endaði með 1-0 sigri Stabæk og því þurfti Álasund að vinna síðari viðureign liðanna sem fór fram á Color Line-leikvanginum í Álasund í dag.

Varnarmaðurinn Oddbjoern Lie kom Álasund yfir á 30. mínútu. Þannig stóðu leikar þangað til á 70. mínútu er Pape Habib Gueye varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafna metin fyrir Stabæk.

Því þurfti Álasund að skora tvö mörk vegna útivallarmarkareglunnar en ekkert mark var skorað það sem eftir var af leiknum. 1-1 í kvöld og samanlagt 2-1. Álasund leikur því í B-deildinni á næstu leiktíð.

Aron Elís Þrándarson fór meiddur af velli á 37. mínútu og Hólmbert Aron Friðjónsson var tekinn af velli stundarfjórðungi fyrir leikslok. Adam Örn Arnarson og Daníel Leó Grétarsson spiluðu allan leikinn í varnarlínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×