Enski boltinn

Stuðnings­menn Liverpool rifja upp gamlar syndir Coote

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan Pickford brýtur á Virgil van Dijk í leik Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í október 2020. Atvikið var mjög umdeilt en enski landsliðsmarkvörðurinn slapp við refsingu fyrir brotið. Van Dijk sleit hins vegar krossband í hné og var frá út tímabilið.
Jordan Pickford brýtur á Virgil van Dijk í leik Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í október 2020. Atvikið var mjög umdeilt en enski landsliðsmarkvörðurinn slapp við refsingu fyrir brotið. Van Dijk sleit hins vegar krossband í hné og var frá út tímabilið. getty/Andrew Powell

Eftir að myndband af dómaranum David Coote þar sem hann kallar Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóra liðsins tussu, fór í dreifingu hafa stuðningsmenn Rauða hersins rifjað upp gömul atvik tengd dómaranum.

Í gær birtist myndband af Coote á samfélagsmiðlum þar sem hann fer ófögrum orðum um Klopp og Liverpool. Ensku dómarasamtökin, PGMOL, hafa sett Coote í ótímabundið bann á meðan rannsókn málsins stendur.

Síðan myndbandið af Coote kom fyrir sjónir almennings hafa stuðningsmenn Liverpool verið duglegir að rifja upp atvik þar sem þeim finnst dómarinn hafa farið illa með sig.

Meðal atvikanna sem týnd hafa verið til er tækling Jordans Pickford á Virgil van Dijk í leik Liverpool og Everton fyrir þremur árum. Van Dijk sleit krossband en Pickford slapp við refsingu. Coote var VAR-dómari á leiknum.

Hann var einnig VAR-dómari í leik Liverpool og Arsenal fyrir ári. Coote breytti ekki dómi Chris Kavanagh eftir að Martin Ødegaard, fyrirliði Arsenal, fékk boltann í höndina innan vítateigs. Howard Webb, yfirmaður PGMOL, sagði seinna að Liverpool hefði átt að fá víti í þessu tilviki.

Coote hefur dæmt í ensku úrvalsdeildinni síðan 2018 en óvissa ríkir um framtíð hans eftir að myndbandið fór í dreifingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×