Viðskipti innlent

Fá greitt í fasteignasjóðum GAMMA

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.
Við kaup Kviku á GAMMA fá hluthafar síðarnefnda fyrirtækisins hluta kaupverðsins greiddan með 535 milljónum króna í hlutdeildarskírteinum í sjóðum GAMMA. Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir að um sé að ræða nokkurn fjölda sjóða.

„Það er enginn einn sjóður áberandi stærstur,“ segir hann. „Megnið er í hlutdeildarskírteinunum í fasteignasjóðum.“

GAMMA er með 140 milljarða í stýringu. Ármann bendir á að slík starfsemi bindi ekki mikið eigið fé en GAMMA hafi hins vegar fjárfest í eigin sjóðum. „Kvika kaupir af GAMMA þessi hlutdeildarskírteini af efnahagsreikningi GAMMA, setur með þeim hætti fjármuni í GAMMA, og nýtir hlutdeildarskírteinin til greiðslu á hluta af kaupverðinu.“ Stór hluti af kaupverðinu byggist á árangurstengdum þóknunum sem innheimtast þegar sjóðum er slitið. Hve háar þóknanirnar verði geti sveiflast á tímabilinu og Kvika hafi ekki viljað taka áhættuna af þeim.

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segir að nokkurs misskilnings hafi gætt í umræðunni varðandi kaupverðið. Fram komi í viljayfirlýsingu í júní að kaupverðið gæti numið allt að 3.750 milljónum króna miðað við stöðu félagsins árið 2017 og árangurstengdra þóknana sem eigi eftir að bókfæra. Í tilkynningu á mánudag komi fram að kaupverðið nemi 2.890 milljónum króna að teknu tilliti til árangurstengdra tekna sem eigi eftir að tekjufæra. „Þetta eru tölurnar sem bera á saman,“ segir hann og rekur lækkunina á kaupverðinu meðal annars til kólnunar í efnahagslífinu og að markaðurinn hafi átt erfitt uppdráttar um skeið.

Greiðslum Kviku fyrir GAMMA er skipt í þrjá hluta: Hluthafar fá 839 milljónir í reiðufé, 535 milljónir í hlutdeildarskírteinum í sjóðum GAMMA og árangurstengdar greiðslur við slit á sjóðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×