Erlent

Höfnuðu því að svissnesk lög yrðu æðri alþjóðalögum

Atli Ísleifsson skrifar
Svissneska höfuðborginni Bern.
Svissneska höfuðborginni Bern. Getty/Domenico Dusina/EyeEm
Meirihluti svissneskra kjósenda hafnaði í dag að svissnesk landslög skyldu vera æðri alþjóðalögum og alþjóðasamningum. Um 67 prósent kjósenda greiddu atkvæði gegn tillögunni í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í dag.

Andstæðingar málsins sögðu að það myndi skaða stöðu Sviss á alþjóðavettvangi ef tillagan hefði verið samþykkt. Hefði verið ljóst að endursemja hefði þurft þúsundir þeirra alþjóðasamninga sem svissnesk stjórnvöld hafa gert.

Niðurstaðan er talin mikið áfall fyrir stærsta stjórnmálaflokk landsins, Svissneska þjóðarflokkinn (SVP), sem barðist fyrir því að málið yrði sett í dóm svissnesku þjóðarinnar.

Tillagan mætti mikilli andstöðu meðal flestra stjórnmálaflokka í Sviss, fulltrúa viðskiptalífsins og mannréttindasamtaka og má vera ljóst að samskipti Sviss við ESB og Sameinuðu þjóðanna hefði skaðast, hefði tillagan verið samþykkt.

Svisslendingar eru þekktir fyrir tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur, þar sem greidd eru atkvæði um ólík málefni. Þannig var tillögu hafnað í dag sem gekk út á að stjórnvöld myndu styrkja bændur sem létu það vera að skera horn af kúm. 54 prósent höfnuðu tillögunni, en 46 prósent voru henni fylgjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×