Fjölmiðlum var boðið að senda fulltrúa um borð í þyrluna sem lenti í Hveragerði á föstudag, þar á meðal fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar sem þáði þó ekki boðið. Myndir frá viðburðinum voru birtar í helgarblaði Fréttablaðsins, en þar kom einmitt fram að Óttar Sveinsson, höfundur og útgefandi Útkallsbókanna vinsælu, hefði afhent Guðmundi Arasyni, eina eftirlifandi skipverja Egils rauða, eintak af nýjustu bók sinni. Bókin, Þrekvirki í djúpinu, fjallar m.a. um björgun áhafnar Egils rauða, sem strandaði við Grænuhlíð árið 1955.
Buðu flugstjórum og fylgdarliði
Vísir sendi Landhelgisgæslunni fyrirspurn þar sem spurt var hvort Gæslan þægi greiðslu fyrir kynningarferðir á borð við þá sem farin var á föstudag. Einnig var spurt hvað slíkt flug kosti og hver hefði greitt fyrir flugið í umrætt skipti. Þá var spurt hvort einhverjar reglur gildi um samstarf Gæslunnar og utanaðkomandi aðila í auglýsingaskyni, og þá hvernig slíku samstarfi hafi verið háttað í gegnum tíðina.Í skriflegu svari Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, við fyrirspurn Vísis segir að ekki hafi verið greitt fyrir umrætt flug heldur hafi Gæslan boðið þremur fyrrverandi flugstjórum sínum og fylgdarliði, þ.e. Óttari og þremur ljósmyndurum, í flugið.

„Landhelgisgæslan tók vel í hugmyndina enda skipa björgunarafrek þessara manna stórt hlutverk í sögu Landhelgisgæslunnar,“ segir í svarinu.
Ótvírætt gildi fyrir Gæsluna og samfélagið
Í framhaldi af æfingu þyrlusveitarinnar og Slysavarnarskóla sjómanna síðastliðinn föstudag hafi Landhelgisgæslan því boðið flugstjórum og fylgdarliði í flug til Hveragerðis, þar sem áðurnefndur skipverji var heimsóttur og honum afhent eintak af nýjustu Útkallsbókinni.„Þegar hugmyndir á borð við þessa berast Landhelgisgæslunni eru þær metnar hverjar fyrir sig með tilliti til þess gildis sem þær hafa fyrir Landhelgisgæsluna og samfélagið. Í þessu tilviki var það talið ótvírætt,“ segir jafnframt í svari Landhelgisgæslunnar.
„Það skiptir miklu máli að halda afrekum þessara manna á lofti enda verður þeim seint nægjanlega þakkað fyrir sín störf í þágu lands og þjóðar.“