Erlent

Sagður hættulegur íslamisti og líkið leyst  upp í sýru

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Khashoggi var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklandi. Morðið á blaðamanninum hefur vakið mikla athygli og reiði innan alþjóðasamfélagsins.
Khashoggi var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklandi. Morðið á blaðamanninum hefur vakið mikla athygli og reiði innan alþjóðasamfélagsins. Vísir/Getty
Sádi-Arabía Lík sádiarabíska blaðamannsins Jamals Khashoggi var leyst upp í sýru eftir að hann var kyrktur og svo sundurlimaður á ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í tyrknesku borginni Istanbúl í upphafi síðasta mánaðar.

Þetta höfðu tyrkneskir fjölmiðlar eftir Yasin Aktay, ráðgjafa tyrkneska forsetans Receps Tayyip Erdogan, í gær. Aktay sagði að þetta væri það eina hugsanlega í stöðunni þar sem lík Khashoggis hefur ekki enn fundist.

„Ástæðan fyrir því að lík Khashoggis var sundurlimað var sú að það auðveldaði þeim að leysa líkið upp. Nú höfum við sem sagt komist að því að þeir sundurlimuðu hann ekki bara heldur leystu líkið upp,“ sagði Aktay.

Tyrkneskir miðlar greindu sömuleiðis frá því í gær að Mohammed bin Salman krónprins hafi sagt í símtali við bandaríska embættismenn, áður en Sádi-Arabar játuðu að þeirra menn hefðu framið ódæðisverkið, að Khashoggi væri hættulegur íslamisti og meðlimur Bræðralags múslima, róttækra samtaka íslamista. Símtalið var á milli prinsins og þeirra Johns Bolton þjóðaröryggisráðgjafa og Jareds Kushner, ráðgjafa og tengdasonar forseta. Það á að hafa átt sér stað þann 9. október, viku eftir hvarf Khashoggis.

New York Times greindi frá því að vinir Khashoggis segðu að hann hefði gengið til liðs við Bræðralag múslima á sínum yngri árum. Hann hafi hins vegar ekki verið virkur meðlimur lengi.

Þessu neitaði fjölskylda Khashoggis í orðsendingu til Washington Post og sagði reyndar að blaðamaðurinn hefði sjálfur ítrekað neitað þessum staðhæfingum á meðan hann lifði.

Mohammed bin Salman hefur áður verið sakaður um að annaðhvort fyrirskipa morðið eða líta fram hjá því. Opinbera skýringin frá Sádi-Arabíu er sú að hópur manna hafi lagt á ráðin um að myrða Khashoggi og svo framið verknaðinn í óþökk stjórnvalda. Khashoggi var þekktur stjórnarandstæðingur og hafði ítrekað beint spjótum sínum að Mohammed prins. Í síðasta pistli sínum fyrir Washington Post, sem birtist eftir andlát Khashoggis, sagði hann að rík þörf væri á auknu tjáningarfrelsi í Arabaheiminum, til að mynda í Sádi-Arabíu, og gagnrýndi harðar aðgerðir gegn stjórnarandstæðingum. 

Í viðtali við Fréttablaðið um síðustu helgi sögðu tveir sádiarabískir stjórnarandstæðingar í útlegð að þeir óttuðust að prinsinn myndi grípa til frekari aðgerða gegn stjórnarandstæðingum og sögðu prinsinn jafnframt verri en einræðis­herra á borð við Saddam Hussein og Muammar Gaddafi.

Í blaðinu í dag er svo rætt við stofnanda sádiarabískrar hljómsveitar sem segir Mohammed með gullmedalíu í harðstjórn en dauðarefsing er við bæði tónlist og textum sveitarinnar.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði frá því í fyrrinótt að enn væru nokkrar vikur í að viðskiptaþvinganir gegn Sádi-Aröbum vegna máls Khashoggis myndu líta dagsins ljós. Morðið hefur komið illa niður á áratugagömlu vinasambandi ríkjanna og er þrýstingur á Trump forseta að grípa til aðgerða gegn þessum bandamönnum sínum.

„Við erum að skoða að innleiða þvinganir gegn þeim einstaklingum sem við höfum nú þegar borið kennsl á og teljum að hafi verið viðriðnir morðið. Það mun trúlega taka okkur nokkrar vikur til viðbótar að safna nægjanlegum sönnunargögnum svo við getum komið þvingununum á en ég held að við munum gera það að lokum,“ sagði Pompeo og bætti því við að Trump hefði svarið að draga morðingja Khashoggis til ábyrgðar.




Tengdar fréttir

Erdogan segir Sáda hafa fyrirskipað morðið á Khashoggi

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir að skipunin um morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi hafi komið úr innsta hring stjórnvalda í Sádi-Arabíu. Washington Post birti í dag skoðanagrein eftir forsetann, þar sem hann heitir því að Tyrkir muni komast til botns í máli blaðamannsins og því verði ekki leyft að gleymast.

Tyrkir segja lík Khashoggi hafa verið "leyst upp“

Talsmaður Receps Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta segir að lík sádi-arabíska blaðamannsins Jamals Khashoggi hafi verið "leyst upp“ eftir að Khashoggi var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl fyrir mánuði síðan og lík hans bútað niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×