Erlent

Íranir hugðu á árás á danskri jörð

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, segir málið "fullkomlega óásættanlegt“ og að danska ríkisstjórnin muni grípa til aðgerða vegna málsins.
Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, segir málið "fullkomlega óásættanlegt“ og að danska ríkisstjórnin muni grípa til aðgerða vegna málsins. Getty/Ole Jensen
Lögregla í Danmörku telur að útsendarar írönsku leyniþjónustunnar hafi haft í hyggju að framkvæma árás gegn fólki í Danmörku.

Danskir fjölmiðlar greina frá því að norskur ríkisborgari af írönskum uppruna sé í haldi, grunaður um að hafa aðstoðað írönsku leyniþjónustuna við að skipuleggja árás.

Danska öryggislögreglan PET segir að maðurinn hafi verið handtekinn 21. október síðastliðinn. „Þetta snýr að starfsemi íranskrar leyniþjjónustu, sem við teljum að hafi ætlað sér að framkvæma árás í Danmörku,“ sagði Finn Borch Andersen, yfirmaður PET, á fréttamannafundi í dag.

Andersen var þar að útskýra aðgerðir lögreglu þann 28. september síðastliðinn, þar sem lögregla stóð fyrir umfangsmikilli aðgerð og lokaði meðal annars Eyrarsundsbrúnni. Á þeim tíma var ekki greint frá um hvað málið snerist. Að sögn Andersen snerist málið um liðsmann ASMLA-hópsins, hreyfingar sem berst fyrir sjálfstæði Ahwaz-héraðs í suðvesturhluta Írans, sem lögregla taldi vera í hættu.

Danir munu bregðast við

Hinn handtekni neitar sök en Andersen segir að árásin hafi átt að beinast gegn hópi Írana í Damörku.

Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, segir málið „fullkomlega óásættanlegt“  og að danska ríkisstjórnin muni grípa til aðgerða vegna málsins. Rætt verði við evrópskar vinaþjóðir Danmerkur um með hvaða hætti það skuli gert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×