Erlent

Lögregla lýsir eftir tvífara Davids Schwimmers

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Manninum svipar óneitanlega til bandaríska leikarans Davids Schwimmers.
Manninum svipar óneitanlega til bandaríska leikarans Davids Schwimmers. Skjáskot/Lögreglan í Blackpool
Lögregla í Blackpool á Englandi leitar nú karlmanns sem þykir afar líkur bandaríska leikaranum David Schwimmer. Líkindin hafa vakið mikla kátínu netverja.

Á mynd sem tekin er úr eftirlitsmyndavél sést maðurinn halda á kassa af bjór en hans er leitað vegna gruns um aðild að þjófnaði þann 20. september síðastliðinn. Lögregla deildi myndinni á Facebook-síðu sinni í gær og voru notendur afar fljótir að taka við sér.

Tilvísunum í hina vinsælu gamanþætti Friends, þar sem Schwimmer fer með eitt aðalhlutverkanna, hóf nær strax að rigna inn í athugasemdir við færsluna. Lögregla gaf gríninu svo byr undir báða vængi með sinni eigin athugasemd.

„Við höfum rannsakað málið vandlega og getum staðfest að David Scwhimmer var í Bandaríkjunum þennan dag. Okkur þykir fyrir því að þetta þurfi að vera svona,“ skrifar lögreglan á Facebook. Færsluna má sjá hér að neðan.

Schwimmer fór með hlutverk steingervingafræðingsins Ross Geller í Friends árin 1994-2004. Í frétt BBC um málið segir að ekki sé vitað hvort Schwimmer hafi einhvern tímann heimsótt Blackpool.

David Schwimmer fór með hlutverk Ross Geller í Friends.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×