Erlent

Forsetakosningar í Brasilíu í dag: Útlit fyrir sigur Bolsonaro

Andri Eysteinsson skrifar
Jair Bolsonaro verður mjög líklega næsti forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro verður mjög líklega næsti forseti Brasilíu. EPA/ Marcelo Sayao
Seinni umferð brasilísku forsetakosninganna fer fram í dag. Nöfn tveggja frambjóðenda verða á kjörseðlinum í dag, fyrrum borgarstjóri Sao Paulo, Fernando Haddad frambjóðandi Verkamannaflokksins, og hinn umdeildi hægrimaður Jair Bolsonaro.

Sigur Bolsonaro yfirvofandi

Fyrri umferð kosninganna fór fram í byrjun október, þar hlaut Bolsonaro afburða kosningu og sigraði fyrri umferðina með 46,03% atkvæða. Fernando Haddad hlaut 29.28% atkvæða. Þar sem enginn hlaut hreinan meirihluta er kosið milli þeirra tveggja í dag. 

Bolsonaro leiðir samkvæmt könnunum Datafolha og Ibope þrátt fyrir að Haddad hafi bætt við sig 10% fylgi. 

Bolsonaro virðist höfða meira til karla en 55% karla hugðust kjósa Bolsonaro en 42% kvenna höfðu ætlað sér það sama. 

Líkir sér við Trump, minnir á Duterte

Fyrrum hermaðurinn Bolsonaro hefur líkt sér við Bandaríkjaforseta Donald Trump en stefnumál hans minna sum hver á forseta Filippseyja, Rodrigo Duterte.

Bolsonaro hefur sagst ætla að að rýmka skotvopnalöggjöf og veita lögreglu frekari heimild til að drepa grunaða sakamenn.

Þær aðgerðir segir Bolsonaro eiga að stemma stigu við miklum fjölda ofbeldisglæpa í landinu en um 64.000 manns voru myrtir í Brasilíu á síðasta ári. 

Kjörstaðir opna klukkan 11:00 á íslenskum tíma (08:00 í Brasilíu) og lokar klukkan 20:00 (17:00 í Brasilíu). Úrslita er að vænta um fjórum tímum síðar.


Tengdar fréttir

Haddad sakar Bolsonaro um kosningasvindl

Brasilíski forsetaframbjóðandinn Fernando Haddad hefur sakað andstæðing sinn, hægriöfgamanninn Jair Bolsonaro, um að dreifa lygum um sig á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×