Fótbolti

Rosenborg með níu fingur á tiltinum og hörð Íslendingabarátta í B-deildinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rosenborg er á góðri leið með að verða norskur meistari enn einu sinni.
Rosenborg er á góðri leið með að verða norskur meistari enn einu sinni. vísir/getty
Rosenborg er í ansi góðum málum í toppbaráttu norsku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 sigur á Brann í toppslag í kvöld.

Rosenborg komst í 2-0 með tveimur mörkum með skömmu millibili í fyrri hálfleik, á fjórtándu og sextándu mínútu en Brann minnkaði muninn í síðari hálfleik.

Matthías Vilhjálmsson var ekki í leikmannahópi Rosenborg sem er með fimm stiga forskot á Brann er þrjár umferðir eru eftir. Fátt sem kemur í veg fyrir fjórða norska titil Rosenborg í röð.

Í B-deildinni eru Íslendingar í baráttu um að komast upp í efstu deild. Axel Andrésson lék í vörn Viking sem vann 1-0 sigur á Ull/Kisa á heimavelli.

Viking er nú á toppnum með 55 stig en Mjöndalen er í öðru sæti með 54 stig. Mjöndalen á þó leik til góða en annað Íslendingalið, Álasund, er í þriðja sæti með 53 stig.

Álasund tapaði 2-0 fyrir Sogndal á útivelli í kvöld. Hólmbert Aron Friðjónsson og Aron Elís Þrándarson léku allan leikinn en Daníel Grétarsson kom inn á sem varamaður á 61. mínútu.

Tvær umferðir eru eftir í B-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×