Erlent

Jair Bolsonaro verður næsti forseti Brasilíu

Atli Ísleifsson skrifar
Jair Bolsonaro hefur verið lýst sem "hinum brasilíska Donald Trump“.
Jair Bolsonaro hefur verið lýst sem "hinum brasilíska Donald Trump“. AP/Silvia Izquierdo
Hægrimaðurinn Jair Bolsonaro verður næsti forseti Brasilíu, en þegar búið er að telja 95 prósent atkvæða hefur Bolsonaro fengið um 56 prósent greiddra atkvæða, en mótframbjóðandi hans, Fernando Haddad, 44 prósent.

Síðari umferð forsetakosninganna fór fram þar sem kosið var milli Bolsonaro og Fernando Haddad, frambjóðanda Verkamannaflokksins og fyrrverandi borgarstjóra Sao Paulo.

Fyrri umferð kosninganna fór fram í byrjun október, þar sem Bolsonaro hlaut 46 prósent atkvæða, en Haddad 29 prósent atkvæða. Þar sem enginn hlaut hreinan meirihluta er kosið milli þeirra tveggja í dag. Kosningabaráttan hefur verið mjög hörð þar sem mjög ólíkir frambjóðendur hafa tekist á.

Hinn brasilíski Donald Trump

Bolsonaro hefur verið lýst sem „hinum brasilíska Donald Trump“ og hefur lagt áherslu á að í embætti myndi hann taka hart á glæpamönnum og spillingu í landinu.

Sjá einnig: Jair Bolsonaro: „Góður glæpamaður er dauður glæpamaður“

Vinsældir hins 63 ára Bolsonaro jukust umtalsvert í byrjun september eftir að hann fluttur á sjúkrahús í kjölfar þess að vera stunginn í kviðinn með hníf á kosningafundi í Juiz de Fora í Minas Gerais. Í árásinni missti hann um 40 prósent af blóðinu í líkama sínum og þurfti að gangast undir aðgerð.

Hann afboðaði sig í fjölda kappræðna í kjölfarið og hefur því lítið verið um sjónvarpskappræður milli frambjóðandanna líkt og venjan hefur verið.

Umhverfismál í brennidepli

Stefna Bolsonaro í umhverfismálum hefur sömuleiðis verið umdeild, en líkt og Donald Trump gerði með Bandaríkin, hefur Bolsonaro sagst vilja draga Brasilíu úr Parísarsamningnum sem ætlað er draga úr losun gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum. Dagana fyrir kosningar hefur hann þó eitthvað dregið úr fyrri yfirlýsingum.

Bolsonaro hefur heitið því að leyfa frekari eyðingu Amazon-frumskógarins og segir umhverfisreglur vera að „kæfa landið“. Hann hefur heitið landbúnaðariðnaðinum að auðvelda honum að ryðja skóga til að rækta nautakjöt og sojabaunir, helstu útflutningsvörur landsins.

Bolsonaro tekur við embætti forseta af Michel Temer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×