Erlent

Hálf milljón Evrópubúa deyr af völdum loftmengunar á ári

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður hjólar fram hjá reykspúandi orkuveri í Skopje í Makedóníu þar sem loftmengun er verst í Evrópu.
Maður hjólar fram hjá reykspúandi orkuveri í Skopje í Makedóníu þar sem loftmengun er verst í Evrópu. Vísir/EPA
Loftmengun er helsta orsök ótímabærra dauðsfalla í flestum ríkjum Evrópu og fleiri en hálf milljón íbúa álfunnar lætur lífið af völdum hennar á ári hverju. Í skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu segir að þó að loftgæði séu smám saman að batna sé mengunin enn mun meiri en heilbrigt er talið samkvæmt viðmiðum Evrópusambandsins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Skýrslan byggir á athugunum sem gerðar voru á 2.500 stöðum í Evrópu árið 2015, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Á grundvelli þeirra hefur Umhverfisstofnunin hækkað mat sitt á árlegum fjölda dauðsfalla af völdum loftmengunar. Árið 2013 taldi hún að um 475.000 manns létust af völdum hennar á ári. Mengunin er helsta orsök ótímabærra dauðsfalla í 41 Evrópuríki.

Áætlað er að fínt svifryk (PM2,5) hafi valdið um 422.000 ótímabærum dauðsföllum í Evrópu árið 2015. Mengunin getur valdið eða espað upp hjartasjúkdóma, astma og lungnakrabbamein. Niturdíoxíð úr bílum og miðstöðvarofnum er talið eiga þátt í 79.000 dauðsföllum og ósonmengun 17.700.

Skammt er síðan evrópsk skýrsla leiddi í ljós að flest 28 ríkja Evrópusambandsins stæðust ekki markmið þess um loftgæði.

Engu að síður telur Umhverfisstofnun Evrópu að ríkin hafi náð að fækka ótímabærum dauðsföllum vegna svifryks um hálfa milljón á ári frá 1990. Sá árangur hafi náðst með evrópskum mengunarstöðlum og staðbundnum aðgerðum sem hafi leitt til hreinni útblásturs bíla, iðnaðar og raforkuframleiðslu.

Verst er mengunin í Makedóníu þar sem styrkur PM2,5 var þrefalt hærri en í næsta landi á eftir. Austur-Evrópa stendur einnig illa sem heild, ekki síst ríki eins og Búlgaría, Pólland og Slóvakía.


Tengdar fréttir

Tengja loftmengun við greindarskerðingu

Fylgni fannst á milli lakari útkomu á stærðfræði- og málhæfniprófum og loftmengunar í rannsókn sem gerð var á 20.000 Kínverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×