Innlent

Nemendum Áslandsskóla mismunað í matarhléum

Birgir Olgeirsson skrifar
Áslandsskóli í Hafnarfirði.
Áslandsskóli í Hafnarfirði. Fréttablaðið Anton Brink
Nemendur Áslandsskóla í Hafnarfirði sem ekki eru í mataráskrift hafa ekki fengið að sitja við hlið samnemenda sinna sem eru í mataráskrift í matsal skólans.

Kvörtun þess efnis barst Umboðsmanni barna í mars síðastliðnum en embættið segir það hafa verið þarfa ábendingu. Var erindi sent á bæjarstjórn Hafnarfjarðar, skóla og frístundasvið bæjarins auk skólastjórnenda í júní sem var ítrekað í ágúst.

Engin viðbrögð hafa borist embættinu í dag en Umboðsmaður barna skorar á Áslandsskóla og Hafnarfjarðarbæ að bæta úr aðstöðunni sem allra fyrsta því matarhlé séu nauðsynleg nemendum til félagslegra samskipta og tengslamyndunar.

Uppeldis og félagslegt gildi máltíða

Samkvæmt erindi Umboðsmanns barna er nemendum, sem ekki eru í mataráskrift, gert að borða nesti sitt á annarri hæð skólans aðskildir frá þeim sem eru í mataráskrift.

Er vísað í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þar sem er tekið fyrir hvers konar mismunun gegn börnum. Þá er einnig kveðið á í aðalnámskrá grunnskóla að skólar leggi áherslu á uppeldis og félagslegt gildi máltíða.

Vonast Umboðsmaður barna til þess að Hafnarfjarðarbær taki til skoðunar hvernig bæta megi skipulag og aðstöðu Áslandsskóla þannig að skólinn geti tryggt öllum nemendum þann rétt til samverustunda í matarhléum sem leiðir af ákvæðum aðalnámskrár, grunnskólalaga og Barnasáttmálans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×